Ævintýralegur fjöldi þátttakenda á Jólaævintýri í Hallskoti

Barnakór Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri söng fyrir gesti. Ljósmynd/Aðsend

Nýliðna helgi fór fram í fyrsta sinn Jólaævintýri í Hallskoti. Áhorfendum var boðið í ferðalag um skóginn sem var upplýstur af jólaljósum og vasaljósum þátttakenda.

Fjölmargar ævintýrapersónur biðu áhorfenda í skóginum: Álfar, jólakötturinn, ævintýrasveppur og norn. Kór Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri kom fram sem tröllabörn og hjálpuðu Grýlu mömmu sinni að finna bróður þeirra, jólasveininn Hurðaskelli.

Þátttaka fór fram úr björtustu vonum og vonir standa til að hægt verði að endurtaka viðburðinn að ári. Aðstandendur verkefnisins voru Leikfélag Eyrarbakka, Skógræktarfélag Eyrarbakka og Ungmennafélag Eyrarbakka ásamt menningar- og upplýsingadeild Árborgar.

Myndirnar tóku Elín Birna Bjarnfinnsdóttir og Hera Fjölnisdóttir.

Fyrri greinHugans skúmaskot undir stiganum í Þorlákshöfn