„Ætlum að skemmta okkur vel“

Hörður Alexander, Svavar Jón, Arnar og Magnús Kjartan á æfingu í dag. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Þriðjudagskvöldið 2. apríl kl. 20:00 fara fram einstakir tónleikar í Hljómahöllinni í Reykjanesbæ, sem bera nafnið „Hljómlist án landamæra“. 

Þetta er í fjórða skiptið sem tónleikarnir eru haldnir en viðburðurinn er í tengslum við listahátíðina „List án landamæra“ sem notið hefur verðskuldaða athygli á landsvísu á undanförnum árum.

Frístundaklúbburinn Selurinn í Árborg tekur þátt í tónleikunum en það eru bræðurnir Arnar og Svavar Jón Árnasynir. Þeim til halds og trausts verður Magnús Kjartan Eyjólfsson, söngvari Stuðlabandsins og píanóleikarinn Hörður Alexander Eggertsson.

Sunnlenska.is kíkti á æfingu hjá strákunum í Pakkhúsinu á Selfossi í dag og er óhætt að segja að þeir hafi verið spenntir fyrir morgundeginum. „Þetta verður mjög gaman og við ætlum bara að skemmta okkur vel og hafa gaman af því að syngja með Magnúsi Kjartani,“ sögðu þeir bræður í samtali við blaðamann. „Svo verða fleiri söngvarar þarna Páll Óskar og Ingó Selfyssingur Veðurguð þannig að þetta er mjög spennandi.“

Á tónleikunum koma fram fatlaðir og ófatlaðir tónlistarmenn frá Suðurnesjum, Selfossi og Akranesi. Sérkenni og jafnframt helsti styrkleiki hátíðarinnar er að þar gefst öllum sem áhuga hafa, tækifæri á að koma listsköpun sinni á framfæri og fagna fjölbreytileika mannlífsins. 

Kynnar verða skemmtikraftarnir Gunni og Felix en aðgangur er ókeypis og vonast aðstandendur til þess að sem flestir sjái sér fært að mæta. 

Fyrri greinNíu sækja um starf sviðsstjóra í Ölfusi
Næsta greinLygileg endurkoma Þórsara