Ærslabelgurinn á Hvolsvelli slær í gegn

Á Hvolsvelli. Ljósmynd/Aðsend

Ærslabelg var komið fyrir á Hvolsvelli á dögunum og er óhætt að segja að hann hafi notið mikilla vinsælda frá fyrsta degi hjá íbúum sem og gestkomandi og er þar nær stanslaus straumur af fólki.

Belgurinn er staðsettur bakvið félagsheimilið Hvolinn og er því gott aðgengi að honum og næg bílastæði fyrir ferðafólk sem á leið í gegnum Hvolsvöll.

Nanna Fanney Björnsdóttir, markaðs- og kynningafulltrúi Rangárþings eystra, segir tilkomu ærslabelgsins vera lið í því að glæða lífi í miðbæinn og auka afþreyingu fyrir unga sem aldna.

„Á Miðbæjartúninu er góð aðstaða til að setjast niður og njóta í lautarferð með fjölskyldu og vinum og þar er einnig hægt að skoða ljósmyndasýningu frá 860+ sem er félag áhugaljósmyndara í Rangárþingi eystra og nágrenni. Þarna er stutt er í alla þjónustu og til dæmis tilvalið að fá sér ís og rölta svo yfir á ærslabelginn,“ sagði Nanna Fanney í samtali við sunnlenska.is.

Fyrri greinBjörguðu rútu upp úr Steinholtsá
Næsta grein„Betri aðilinn allan leikinn“