Aðstæður ómögulegar til slökkvistarfa

Slökkviliðsmenn berjast við eldinn í sumarhúsinu í morgun. Ljósmynd/Brunavarnir Árnessýslu

Sumarhús í sumarhúsabyggðinni í landi Snorrastaða í Laugardal eyðilagðist í eldi í morgun. Brunavarnir Árnessýslu fengu boð um eldinn klukkan 6:45 og þegar slökkviliðsmenn komu á vettvang var húsið alelda.

„Húsið stendur ofarlega í fjallshlíð í miklu skóglendi og aðstæður þarna voru verulega erfiðar. Það var erfitt að koma þungum tækjum á vettvang og við þurftum að leggja um hálfan kílómetra af slöngum,“ segir Pétur Pétursson, slökkviliðsstjóri, í samtali við sunnlenska.is.

Dælubílar slökkviliðsins komust að húsinu en þungir tankbílar sukku í blautan veginn.

„Í raun má segja að aðstæðurnar þarna hafi verið ómögulegar til slökkvistarfa eins og víða er á sumarhúsasvæðum. Bílarnir sökkva í drulluna sem skapar hættu fyrir okkur, þeir gætu jafnvel oltið,“ segir Pétur.

„Það er líka mikill gróður á svæðinu og við þurftum að setja púður í að verja gróðurinn en það varð okkur til happs að það fór að rigna þegar leið á morguninn,“ segir Pétur.

Um tuttugu slökkviliðsmenn frá Laugarvatni og Reykholti, ásamt tankbílum frá Selfossi og Hveragerði fóru á vettvang og luku síðustu menn störfum um klukkan hálf fjögur í dag.

Húsið var mannlaust og óvíst er um eldsupptök en rannsóknardeild lögreglunnar á Suðurlandi rannsakar málið.

Ljósmynd/Brunavarnir Árnessýslu
Fyrri greinÍslenskar einsöngsperlur og galsafullur lofsöngur
Næsta greinHamar svaraði fyrir sig