Aðgerðaráætlun samþykkt í bæjarstjórn á morgun

Frá fundi bæjarstjórnar í gær. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Farið var yfir drög að aðgerðaráætlun um fjárhagslegar aðgerðir hjá Sveitarfélaginu Árborg á bæjarstjórnarfundi í gær og verður hún lögð fram til endanlegrar samþykktar á aukafundi bæjarstjórnar á morgun.

Eins og fram hefur komið sagði sveitarfélagið upp 57 starfsmönnum fyrr í mánuðinum en í aðgerðaráætluninni kemur fram að um leið voru gerðar breytingar á verkefnum, launakjörum og ráðningarhlutföllum um 40 annarra starfsmanna til viðbótar.

Losunargjald á jarðvegstippinn
Meðal þess sem fram kemur í drögunum er að ákveðið hefur verið að hefja innheimtu þjónustugjalda við losun á jarðvegstipp, sem áætlað er að auki tekjur um 30 milljónir króna árlega. Þá verða allar þjónustugjaldskrár sveitarfélagsins yfirfarnar við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2024, sem og álagningarhlutföll fasteignagjalda. Bæjarstjórn hefur einnig til skoðunar rekstrarform B-hluta fyrirtækja sveitarfélagsins.

Mötuleyti sameinuð og opnunartímar styttir
Gerðar hafa verið ýmsar breytingar til að draga úr rekstrargjöldum sveitarfélagsins, svo sem með styttum opnunartíma á leikskólum, sundlaugum, bókasafni og gámasvæðum. Upplýsingatæknideild var lögð niður í fyrra og verkefnum útvistað og er nú unnið að greiningu á frekari tækifærum til útvistunar á þjónustu, svo sem á sviði leikskóla.

Mötuneyti sem sveitarfélagið rekur verða sameinuð á árinu 2023 og innleidd hafa verið samræmd viðmið við úthlutun rekstrarfjár til leik- og grunnskóla, sem hafa leitt í ljós talsverð tækifæri til hagræðingar sem koma til framkvæmda við upphaf næsta skólaárs.

Tímabundnum verkefnum sem teljast ekki til kjarnastarfsemi hefur verið hætt, svo sem á sviði lýðheilsumála, og dregið verður úr kostnaði við starfsmannamál, svo sem við árshátíð og jólagjafir.

Rýnt í kosti og galla samstarfsverkefna
Þá hyggst bæjarstjórn láta fara fram rýni á samstarfsverkefnum sem sveitarfélagið tekur þátt í, með það fyrir augum að auka skilvirkni og draga úr útgjöldum. Til dæmis hefur HLH ráðgjöf verið falið að vinna að úttekt á kostum og göllum þess fyrir Árborg að halda áfram þátttöku í starfsemi byggðasamlagsins Bergrisans, sem skipuleggur og framkvæmir þjónustu við fatlað fólk.

Skipulagsdeild færð undir mannvirkja- og umhverfissvið
Á fundi bæjarstjórnar var einnig samþykkt sú skipuritsbreyting að færa skipulagsdeild af stjórnsýslusviði yfir á mannvirkja- og umhverfissvið. Þar er horft til þess að skipulagsmálin eru nú þegar í sama húsnæði og mannvirkja- og umhverfissvið. Með yfirfærslunni fæst aukin yfirsýn og tengsl þessara málaflokka. Með breytingunni geta einnig skapast tækifæri til þess að dreifa betur álagi og auka teymisvinnu starfsmanna og stjórnenda í málaflokkunum. Afgreiðsla að Austurvegi 67 verður opin frá kl. 9-12 alla virka daga.

Fyrri greinSkeiða- og Gnúpverjahreppur fyrst sunnlenskra sveitarfélaga í rafræn skil
Næsta greinSkemmdir unnar á ljósleiðara í Djúpárhreppi