Aðeins eitt tilboð barst í smíði nýrrar Ölfusárbrúar

Nýja brúin á Ölfusá verðu 330 m löng stagbrú með turni á Efri-Laugardælaeyju. Mynd/Vegagerðin

Tilboð í samkeppnisútboði vegna hönnunar og byggingar brúar yfir Ölfusá voru opnuð í dag. Aðeins eitt tilboð barst í verkið, frá ÞG verktökum ehf.

Fimm verktakafyrirtæki sóttu um þátttöku í alútboði vegna hönnunar og byggingar brúarinnar, meðal annars fyrirtæki í Þýskalandi, Japan og á Spáni. Allir fengu þeir útboðsgögnin í hendurnar en ÞG verktakar voru þeir einu af þessum fimm aðilum sem skiluðu inn tilboði.

Í tilkynningu frá Vegagerðinni segir að tilboð ÞG verks sé upphafstilboð. Vegagerðin muni nú fara yfir það og stefnt sé að því að fara í samningsviðræður við ÞG verktaka. Tilboð ÞG verks verður ekki gefið upp að svo stöddu en að loknum samningsviðræðum verður endanleg upphæ gefin upp.

Gert er ráð fyrir að undirritun verksamnings geti farið fram í júlí og undirbúningur á verkstað gæti hafist á þessu ári en áætlað er að brúin verði opnuð fyrir umferð haustið 2027.

Brúin verður 330 metra löng stagbrú með 60 metra háum turni á Efri-Laugardælaeyju. Brúargólf verður 19 m breitt og er gert ráð fyrir 2+1 vegi með aðskildum aksturstefnum ásamt göngu- og hjólaleið. Einnig er gert ráð fyrir göngu- og hjólaleið undir brúna á báðum árbökkum. Með nýju brúnni mun þjóðvegur 1 styttast um 1,2 kílómetra.

Fyrri grein„Það er augljóst að Aníta á góða að“
Næsta greinFramtíð „Stóra plokkdagsins“ er björt