Addi Fannar í Hörpu

Selfyssingurinn Arngrímur Fannar Haraldsson hefur verið ráðinn verkefnastjóri tónlistarviðburða í tónlistarhúsinu Hörpu með rafmagnaða tónlist sem sérsvið.

„Arngrímur Fannar er með B.S próf í ferðamálafræði frá HÍ og starfaði sem sölustjóri hjá Icelandair Hotels á árunum 2005 til 2007,” að því er fram kemur í tilkynningu frá Hörpu. „Hann vann við viðburðastjórnun hjá Glitni árin 2007 og 2008 og starfaði nú síðast sem viðskiptastjóri á fyrirtækjasviði Vodafone.”

Þá er þess getið að Arngrímur Fannar hafi 20 ára reynslu af hljóðfæraleik sem gítarleikari Skítamórals auk þess sem hann hefur talsverða reynslu af tónleikahaldi og skipulagningu tónlistarviðburða.

Arngrímur Fannar hefur störf í Hörpu í febrúar næstkomandi en húsið opnar eftir 135 daga.