„Undirbúningur gengur vel í öllum kjördeildum og þetta lítur vel út með morgundaginn,“ segir Þórir Haraldsson, formaður yfirkjörstjórnar Suðurkjördæmis, í samtali við sunnlenska.is.
„Það er auðvitað spáð einhverri snjókomu og vindi á suðaustanverðu landinu á morgun og það getur haft áhrif á færð austast í kjördæminu og mögulega einnig á Reynisfjalli,“ segir Þórir.
„Aðalmálið er að það sé fært fyrir kjósendur á kjörstað. Hvað gerist síðan annað kvöld með flutning kjörkassa á talningarstað á Selfossi kemur bara í ljós. Eins og þetta lítur út núna þá er ekki gert ráð fyrir neinni truflun en ef það brestur á með óveðri með morgninum þá tökum við stöðuna á morgun.“
Fyrstu tölur fyrir klukkan 23
Atkvæði í Suðurkjördæmi eru talin í Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi. Þau eru flutt landleiðina frá Hornafirði og mikill atkvæðafjöldi kemur yfir Hellisheiðina frá Reykjanesinu. Þá fer hafnsögubáturinn í Vestmannaeyjum sér ferð í Landeyjahöfn með kjörkassa frá Eyjum.
„Við ættum að fá fyrstu tölur úr Suðurkjördæmi upp úr klukkan hálf ellefu. Og ef allt gengur eins og í sögu þá koma síðustu tölur í fyrsta lagi á milli klukkan 5 og 6. Atkvæðin fara um langan veg, það eru 400 kílómetrar frá Hornafirði, kjörkassarnir leggja af stað þaðan um klukkan hálf ellefu og eru að koma í hús á Selfossi á fjórða tímanum. Venjulega ljúkum við ekki störfum fyrr en snemma á sunnudagsmorgun,“ sagði Þórir að lokum.