Aðalleið bauð lægst í jarðvinnu við nýjan leikskóla á Selfossi

Leikskólinn mun rísa við Engjaland, sem er austarlega í Löndunum á Selfossi. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Tólf tilboð bárust í jarðvinnu fyrir nýjan leikskóla sem rísa mun við Engjaland á Selfossi á næsta ári.

Aðalleið ehf í Hveragerði átti lægsta tilboðið tæpar 25 milljónir króna, sem er 71% af kostnaðaráætlun. Áætlaður verktakakostnaður við jarðvinnuna var 35 milljónir króna.

Borgarverk ehf átti næst lægsta tilboðið, 27,2 milljónir króna, Verk og tækni ehf bauð 28 milljónir, Karína ehf 28,8 milljónir, Fögrusteinar ehf 29,2 milljónir og Egill Guðjónsson ehf 29,4 milljónir króna.

Þar á eftir komu boð frá Gröfuþjónustu Steins ehf 31,6 milljónir króna, Mjölni 31,8 milljónir og Bokkaverki ehf 32,7 milljónir króna. Smávélar ehf buðu 35,7 milljónir króna, og Háfell ehf og HB vélar ehf áttu hæstu tilboðin en þau hljóðuðu bæði upp á 39,5 milljónir króna.

Verkið felst í að grafa fyrir leikskólanum fylla undir sökkla hússins og fylla í lóð og bílastæði. Verkinu skal lokið 7. janúar næstkomandi.