Aðalheiður hlaut samfélagsviðurkenningu Rangárþings eystra

Ljósmynd/hvolsvollur.is

Aðalheiður Margrét Gunnarsdóttir á Kirkjulæk 1 í Fljótshlíð hlaut á dögunum samfélagsviðurkenningu Rangárþings eystra, en þetta er í þriðja sinn sem þessi viðurkenning er veitt.

Aðalheiður hefur verið einstaklega dugleg við að standa fyrir og skipuleggja viðburði sem hafa lífgað á samfélagið. Má til að mynda nefna sýningar eins og Litlu hryllingsbúðina og Kabarett, sem hún setti á svið með nemendum sínum í tónlistarskólanum við góðar undirtektir.

Hún stóð fyrir skemmtilegu dansnámskeiði í Goðalandi í aðdraganda þorrablóts þar sem hún kenndi samkvæmisdansa og þá hefur hún ásamt fleirum sett saman hljómsveit og spilað á jólaballi í Fljótshlíð undanfarin ár. Hér er aðeins fátt eitt nefnt en Aðalheiður er alltaf tilbúin að leggja sitt af mörkum til að gera eitthvað skemmtilegt og leggur þá jafnan nótt við dag til að láta hlutina gerast.

Það er markaðs- og menningarnefnd sveitarfélagsins veitir verðlaunin og geta þau fallið í skaut einstaklings, fyrirtækis, stofnunar eða félagasamtaka sem þykja standa sig afburða vel í að efla samfélagið eða hafa með gjörðum sínum eða framgöngu látið gott af sér leiða og verið öðrum fyrirmynd.

Viðurkenningin var afhent á Kjötsúpuhátíðinni á dögunum.

Fyrri greinDvalarleyfin eru ekki vandamálið
Næsta greinSúkkulaðigerð á Höfn og hundafóður í Árborg valin í Startup Landið