Aðalbjörg og Eyvindur hlutu Landbúnaðarverðlaunin 2024

Katrín Jakobsdóttir ásamt verðlaunahöfum landbúnaðarverðlaunanna 2024, Aðalbjörgu Ásgeirsdóttir og Eyvindi Ágústssyni frá Stóru-Mörk undir Eyjafjöllum. Ljósmynd: Stjórnarráðið/Sigurjón Ragnar

Landbúnaðarverðlaunin fyrir árið 2024 voru afhent á Búnaðarþingi í dag af Katrínu Jakobsdóttur, sem starfar um þessar mundir sem matvælaráðherra.

Aðalbjörg Ásgeirsdóttir og Eyvindur Ágústsson í Stóru-Mörk undir Eyjafjöllum hlutu verðlaunin fyrir framúrskarandi árangur við innleiðingu loftslagsvænna búskaparhátta.

Stóra-Mörk er landnámsjörð sem getið er um í Njálssögu og er nyrsti bær Eyjafjalla. Þar er í dag þríbýli og hefur sama ætt stundað þar hefðbundinn blandaðan búskap frá árinu 1865 til dagsins í dag.

Í Stóru-Mörk er bú með nautgripi, bæði til mjólkur- og kjötframleiðslu en einnig með sauðfé og einnig er þar rekin ferðaþjónusta. Aðalbjörg og Eyvindur hafa verið þátttakendur í verkefninu Loftslagsvænum landbúnaði frá árinu 2020 og hafa á þeim tíma náð miklum árangri í búrekstrinum.

Í Stóru-Mörk voru mestar meðalafurðir í mjólkurframleiðslu eftir árskú í fyrra, en á þeim fjórum árum sem Aðalbjörg og Eyvindur hafa verið þátttakendur í verkefninu hefur orðið um 20% aukning í afurðum á árskú, en rekstrargögn búsins sýna að þrátt fyrir svona hátt afurðastig er kjarnfóðurkostnaður undir meðaltali á landinu. Einnig hefur framlegðarstig búsins hækkað á þessum árum og er mun hærra en landsmeðaltal.

Öflugt landgræðslustarf hefur einnig verið unnið í Stóru-Mörk og hlutu Aðalbjörg og Eyvindur landgræðsluverðlaunin árið 2021, ásamt foreldrum Aðalbjargar, Rögnu Aðalbjörnsdóttur og Ásgeiri Árnasyni. Stóra-Mörk er eitt fárra búa sem hefur tekið þátt í verkefninu „Bændur græða landið“ frá upphafi og í dag vinna þau að því að endurheimta birkiskóg í Merkurnesi.

Fyrri greinSveitarstjórnin tilbúin að endurskoða gjaldskrárhækkanir
Næsta greinMikilvægur sigur Þórsara