Á stolnu reiðhjóli með stolna borðsög

Vegfarandi sá til mannsins baxa með borðsög af stærri gerðinni á reiðhjóli.

Að morgni dags um miðja síðustu viku handtók lögreglan á Selfossi mann eftir að vegfarandi hafði séð til hans baxa með borðsög af stærri gerðinni á reiðhjóli á Selfossi.

Sögina reyndist hann hafa tekið ófrjálsri hendi á verkstað í íbúðahverfi í bænum og reiðhjólið, sem hann hafði losað sig við þegar að var komið, var að líkindum tekið ófrjálsri hendi líka.

Þegar lögreglan kannaði málið betur reyndist maðurinn vera með í fórum sínum muni af fimm mismunandi stöðum. Hann kannaðist við brot sín og var að auki yfirheyrður vegna tveggja annarra mála sem bárust frá nærliggjandi umdæmum.

Í dagbók lögreglunnar segir að maðurinn sé á fertugsaldri og því ekki um bernskubrek að ræða. Mál þessi teljast upplýst og fara nú til ákærusviðs til útgáfu ákæru.

Fyrri greinRut og Björn á Kvoslæk hlutu Menningarverðlaun Suðurlands
Næsta grein67 í einangrun á Suðurlandi