Á slóðum Shakespeare

Fyrir skömmu fóru starfsmenn Bókasafns Árborgar í kynnisferð um Bretland.

„Þar sem við ætlum bráðum að verða hluti af Bókabæjunum austanfjalls og bókasafnið hefur tekið þátt í þeim undirbúningi, þá ákváðum við að kynna okkur hvernig Bretar hafa nýtt sinn bókmenntaarf til að efla ferðamannaiðnaðinn og jafnframt til að styrkja og halda á lofti bókunum sínum,“ segir Heiðrún Dóra Eyvindardóttir, forstöðumaður Bókasafns Árborgar í samtali við sunnlenska.is. Heiðrún hefur einnig starfað í undirbúningshópi fyrir Bókabæina austanfjalls.

„Við vorum tíu sem fórum í ferðina og byrjuðum á nokkurskonar pílagrímsheimsókn til Hay-on-Wye þar sem bókabæja-ævintýrið hófst fyrir 50 árum. Richard Booth, stofnandi bókabæjarins og sjálfskipaður konungur Hay-on-Wye, tók þar á móti okkur og heiðraði okkur með nærveru sinni og tölu um það sem honum lá á hjarta. Hann er orðinn gamall maður en enn brennur hugsjónaeldurinn,“ segir Heiðrún.


Kvöldverður með kónginum af Hay-on-Wye og aðstoðarkonu hans.
Rakel sem situr við borðsendann átti líka 30 ára afmæli þarna svo þetta var mikil hátíð.

Að sögn Heiðrúnar ætlar Richard Booth að koma til Íslands í tilefni af stofnfundi Bókabæjanna sem verður þann 27. september næstkomandi. „Hótel Selfoss er svo rausnalegt að bjóða honum gistingu meðan hann er hér og mestan hluta tímans verður hann hér á Selfossi.“

Heiðrún er afar ánægð með ferðina. „Við fengum leiðsögn um bæinn sem er alveg yndislegt sveitaþorp og hótelið var hiklaust það krúttlegasta og skemmtileasta sem við höfum verið á,“ segir Heiðrún.

„Heimabær Shakespeare’s Stratford Upon Avon var svo næst á dagskrá og þar skoðuðum við ein fimm hús sem keypt hafa verið til að hafa til sýnis af því þau tengjast sögu hans og fjölskyldu. Um öll þessi hús er stöðugur straumur gesta og í fæðingarhúsi hans stíga leikarar á stokk á tveggja tíma fresti og fara með valda kafla úr verkum hans en það er líka hægt að biðja þá um uppáhaldskafla ef maður vill því þeir kunna Shakespeare nánast utanbókar, svo magnað sem það er!“ segir Heiðrún.

Heiðrún og félagar hennar af bókasafninu skoðuð einnig kirkjuna þar sem Shakespeare er grafinn. „Kirkjan er ægifögur og stendur á fögrum stað við árbakkann. Shakespeare liggur þar nánast upp við altarið og ástæðan er ekki sú að hann hafi verið svo mikilsvirtur leikritahöfundur þá – þó það hafi hann vissulega verið – heldur af því að hann var feiknamikill buissness maður og forríkur og borgaði fyrir þetta fína pláss.“

Shakespeare var ekki eini rithöfundurinn sem hópurinn heimsótti. „Við enduðum ferðina í Oxford, á slóðum Tolkiens, C.S. Lewis og J.K. Rowling. Við skoðuðum skólann þar sem Lewis lögregluforingi er svo oft á ferð, Christ Church þar var pabbi Lísu í Undralandi stærðfræðikennari og mamma Harry Potter sótti hugmyndir sínar um Hogwarts skólann þangað. Í hliðinu inn í skólagarðinn er lítið búr og þar inni maður með harðkúluhatt sem passar að bara stúdentar komi inn eftir lokun og enginn óviðkomandi. Eins gott að haga sér vel því sá góði maður hefur örugglega verið þarna allan tíman og þekkir bæði Lísu og Harry og ferðast um í kanínugöngum því hann var allstaðar mættur þar sem einhverri okkar datt í hug að fara eitthvað út fyrir rammann,“ segir Heiðrún.


Andaktugar við Harry Potter stigann í Christ Church Oxford.

„Við skoðuðum líka pöbba þar sem senur úr þeim þáttum og þáttunum um Morse lögregluforinga voru teknar upp. Bodleian bókasafnið eitt af þeim stærstu í Bretlandi er jafn heillandi staður, það safn lánar ekki út heldur verða fræðimenn að lesa á staðnum. Andrúmsloftið þykkt af bókmenntum, lærdómi og gamalli sögu. Ég varð hrærð við að koma þarna inn og ekki ein um það,“ segir Heiðrún sem er enn í skýjunum með ferðina.


Pöbbinn þeirra Morse og Lewis við árbakkann.

„Við vorum í einn og hálfan tíma að skoða alla sali sem við máttum fara inn í, vorum svo heppnar að vera á sunnudegi þá er safnið lokað fyrir öðrum og hægt að sýna alla lessalina. Hver mínúta ferðarinnar var nýtt og ég hef sjaldan farið í ferð sem var svona skemmtileg og viðburðarík frá upphafi til enda,“ segir Heiðrún.

„Ferðin sýndi okkur hvað virðing fyrir bókmenntaarfinum getur bæði gert lífið svo mikið fallegra og ævintýralegra en líka verið beinlínis atvinnuskapandi. Fæðingabær Shakespeare er gott dæmi um það þar sem fólk streymir að allstaðar úr veröldinni bara til að skoða allt sem uppá er boðið og varðar hann og fjölskyldu hans,“ segir Heiðrún að lokum.

Fyrri greinStolinn Land Rover sást síðast á Skeiðavegi
Næsta greinUngar og uppaldar stelpur drógu vagninn