Á skilorð fyrir fjölmörg afbrot

29 ára gamall karlmaður var í dag dæmdur í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi í Héraðsdómi Suðurlands fyrir fjölda umferðar- og auðgunarbrota.

Ákæruliðirnir voru tólf talsins en maðurinn var meðal annars ákærður fyrir hraðakstur, akstur undir áhrifum fíkniefna og áfengis, stuld á hraðsendingum, bílþjófnað, bensínstuld og að skipta um skráningarnúmer á bílum.

Maðurinn játaði skýlaust sök í öllum ákæruliðum.

Hann var dæmdur í þriggja mánaða fangelsi en fullnustu refsingarinnar er frestað og fellur niður að tveimur árum liðnum haldi maðurinn almennt skilorð.

Þá var honum gert að greiða 342.500 króna sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna, ella sæta fangelsi í 22 daga. Hann var einnig sviptur ökuréttindum í fimmtán mánuði og gert að greiða sakarkostnað, samtals 177.176 krónur. Þá þarf hann að greiða Olís skaðabætur að fjárhæð 11.002 krónur auk vaxta.

Fyrri greinFjögurra mánaða fangelsi fyrir kannabisræktun
Næsta greinHákon Þór bikarmeistari