Á sjötta tug slökkviliðsmanna að störfum

Vel á sjötta tug slökkviliðsmanna frá fimm slökkviliðum unnu að slökkvistarfi í Set og 800Bar á Selfossi í gær. Slökkvistarf gekk vel en einn slökkviliðsmaður meiddist á hendi.

Útkallið barst kl. 12:48 og tók varðstjóri strax þá ákvörðun að kalla út liðsauka frá Hveragerði og Þorlákshöfn. Þar að auki var haft samband við Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins sem bauð fram aðstoð og sendi tólf menn á þremur bílum. Einnig kom vatnsbíll frá Brunavörnum Rangárvallasýslu ásamt tveimur mönnum.

Þar sem allt viðbragðslið var á vettvangi var haft samband við varðstjóra á Laugarvatni sem kom á Selfoss ásamt tveimur mönnum og voru þeir í viðbragðsstöðu ef annað útkall kæmi til, s.s. klippuslys. Þá var varðstjóra í Reykholti gert viðvart og látinn vita að slökkviliðið í Reykholti sæi alfarið um útköll sem gætu borist á sama tíma í Bláskógabyggð.

Jóhann Marelsson, slökkviliðsstjóri á Flúðum hafði samband og bauð fram mannskap en ekki reyndist þörf á að þiggja þá aðstoð. Auk þess höfðu fyrrum slökkviliðsmenn BÁ samband og buðu fram aðstoð sína sem ekki þótti þörf á að þiggja að svo stöddu.

Á vettvangi frá Brunavörnum Árnessýslu voru fjörutíu slökkviliðsmenn að störfum frá þremur stöðvum auk þess sem mennirnir frá Laugarvatni aðstoðuðu starfsfólk á slökkvistöð við samlokugerð og fleira tilfallandi. Samtals voru því 57 slökkviliðsmenn að störfum á vettvangi eða í tengslum við útkallið.

Slökkvistarfið gekk vel fyrir sig og ekki urðu slys á fólki utan eins slökkviliðsmanns sem meiddist á hendi en reyndist óbrotinn.

Fyrri greinBjörgvin G: Græn orka og færin í ferðaþjónustu
Næsta greinViðar Arason: Við erum ávallt á vakt