Á reynslulausn með hvítt duft og kannabis

Lögreglan á Suðurlandi hafði afskipti af ökumanni fólksbifreiðar í Hveragerði síðdegis á miðvikudag vegna gruns um að hann væri undir áhrifum fíkniefna.

Með honum í bifreiðinni var karlmaður sem hafði í fórum sínum hvítt duft og kannabis í því magni að grunur lék á að hann væri að selja fíkniefni. Maðurinn reyndist vera á reynslulausn. Hann var handtekinn og færður til yfirheyrslu.

Lögreglustjóri gerði kröfu til Héraðsdóms Suðurlands um að manninum yrði gert að afplána eftirstöðvar óafplánaðrar fangelsisrefsingar. Dómari hafnaði kröfunni á þeim forsendum að lögreglu hefði ekki tekist að færa sönnur á að maðurinn hafi verið að selja fíkniefni.

Auk þessa máls komu upp tvö önnur fíkniefnamál upp. Annað í Hveragerði og hitt á Selfossi. Hvoru tveggja minni háttar neyslumál sem voru afgreidd með yfirheyrslum.

Fyrri greinJafntefli lyfti Selfyssingum upp úr fallsæti
Næsta greinÖlvaður á 128 km/klst hraða