Á-listinn vill víkja Drífu frá störfum

Minnihlutinn í Á-listanum í Rangárþingi ytra vill að Drífu Hjartardóttur, sveitarstjóra, verði vikið tímabundið frá störfum á meðan rannsökuð er ástæða uppsagnar starfsmanns á skrifstofu sveitarfélagsins.

Tillagan minnihlutans var sett fram vegna bréfs sem barst sveitarstjórn frá fimm starfsmönnum á skrifstofu Rangárþings ytra vegna uppsagnar starfsmanns á skrifstofunni. Starfsmaðurinn er varafulltrúi Á-listans í hreppsnefndinni og var í framboði fyrir síðustu kosningar.

Á-listinn lagði til að vegna álags á skrifstofu sveitarfélagsins og að hugsanlega hafi verið staðið rangt að uppsögn starfsmannsins yrði uppsögn dregin til baka og starfsmanninum veitt starfið að minnsta kosti út árið 2013 þar sem gert hafði verið ráð fyrir launum hans allt árið á fjárhagsáætlun. Meirihlutinn felldi þá tillögu.

Starfsmenn skrifstofu Rangárþings ytra staðhæfa eftir starfsmannafund með Drífu sveitarstjóra í lok september að uppsögn starfsmannsins hafi verið á pólitískum forsendum. Þess vegna lagði Á-listinn til að ástæða uppsagnarinnar yrði rannsökuð og Drífu vikið frá störfum á meðan.

Meirihlutinn felldi þessa tillögu einnig en í bókun D-listans kemur fram að einungis hafi verið um tímabundna ráðningu í tilraunaverkefni að ræða og að ráðning starfsmannsins hafi fallið sjálfkrafa út þann 31. október síðastliðinn. Ekki séu nein áform um breytingar á stöðu fastráðinna starfsmanna.

Gunnsteinn R. Ómarsson, fyrrverandi sveitarstjóri, segir á Facebooksíðu sinni að starfsmaðurinn hafi verið ráðinn á tólf mánaða reynslusamningi. Þó svo tiltekið væri í samningnum að hann væri tímabundinn kom fram í honum að ef honum væri ekki sagt upp myndi hann framlengjast sem fastráðningarsamningur enda var hugmyndin sú að fastráða í starfið ef allt gengi vel varðandi þetta nýja svið.

“Starfsmaðurinn er framúrskarandi og veit ég að starfsmenn skrifstofunnar eru ánægðir með framlag hans og forstöðumaður sviðsins, sem var hans næsti yfirmaður, var meira en ánægður með þennan öfluga samstarfsmann og verksvið hans,” segir Gunnsteinn og bætir við að það sé með ólíkindum að sveitarstjóri segi upp starfsmanni, án samráðs og í andstöðu við næsta yfirmann viðkomandi starfsmanns og að kjörnir fulltrúar meirihluta réttlæti slíka uppsögn þar sem um tímabundinn ráðningarsamning hafi verið að ræða.

Fulltrúar Á-listans hafa lýst því yfir að með því að hafna tillögunni um að rannska tildrög uppsagnarinnar sé lítið gert úr áhyggjum starfsmanna skrifstofunnar. Málinu sé ekki lokið af hálfu Á-listans.

Fyrri greinÓveður undir Eyjafjöllum
Næsta greinNeyðarlínan vill smávirkjun í Laufafelli