„Á í ástar/ haturssambandi við þáttinn“

Selfyssingurinn Ágústa Rúnarsdóttir hefur séð um að þýða sjónvarpsþættina Grey’s Anatomy frá árinu 2013 eða þegar tíunda þáttaröðin hóf göngu sína.

Þættirnir, sem segja frá lífi og starfi lækna á Grey Sloan Memorial sjúkrahúsinu í Seattle í Bandaríkjunum, hafa verið sýndir á Stöð 2 um árabil og njóta mikilla vinsælda víða um heim.

Skilur vinkonurnar betur
„Ég fékk vinnu við skjátextaþýðingar á Stöð 2 þá um vorið og byrjaði meðal annars á því að þýða læknaþættina Miami Medical. Það var ofsalega vont sjónvarpsefni og þættirnir urðu ekki langlífir,“ segir Ágústa sem er með BA gráðu í ensku.

„Þá um haustið var ég beðin að taka Grey’s að mér, líklega svo læknisfræðiþekkingin sem ég hafði öðlast færi ekki til spillis. Ég varð þess áskynja innanhúss í Skaftahlíðinni að þetta þótti töluverð upphefð fyrir nýgræðinginn, sem mér þótti bráðsniðugt af því ég hafði aldrei almennilega skilið þann sess sem þættirnir skipuðu í lífi margra vinkvenna minna,“ segir Ágústa.

Ágústa segist vera orðin margs fróðari um gerð og uppbyggingu sápuópera síðan hún hóf að vinna við skjátextaþýðingar. „Ég skil orðið betur hvers vegna vinkonur mínar máttu ekki missa af Grey’s. Ég hef nefnilega líka aðeins komið nálægt því að þýða The Bold and the Beautiful og slíkt sjónvarpsefni er beinlínis hannað til þess að verða ávanabindandi. Þótt einhverjum þyki sjálfsagt guðlast að bera Grey’s saman við hreinræktaða sápu er munurinn í raun og sann ekki ýkja mikill. Annar þátturinn er sýndur daglega en hinn vikulega, að öðru leyti er formúlan glettilega lík.“

Þykir orðið vænt um sumar persónurnar
Ágústa ber blendnar tilfinningar til þáttarins. „Ætli það megi ekki segja að ég eigi í ástar/haturssambandi við Grey‘s Anatomy. Mér finnst þeir heilt yfir frekar kjánalegir og stundum er atburðarásin svo út í hött að ég gæti gargað (og geri það stundum). Samt vil ég ekki láta þættina frá mér og mér þykir vissulega orðið vænt um sumar persónurnar. Það er til dæmis eftirminnilegt þegar ég stóð upp frá tölvunni útgrátin í ekkasogum vorið 2015. Maðurinn minn tók utan um mig, spurði hvað hefði eiginlega gerst og sá fyrir sér alls kyns hræðilega atburði þar til ég gat stunið því upp að Derek væri dáinn. Þá andaði hann léttar enda ekki tengdur dr. Shepherd sömu tilfinningaböndum og ég.“


Dr. Derek Shepherd, sem hefur valdið mörgum hjartasorg.

Fær góða hjálp frá öðrum Selfyssingi
Aðspurð hvort það sé ekki stundum erfitt að þýða læknisfræðileg heiti og hugtök segir Ágústa að hún eigi góðan að í þeim efnum. „Ég hef verið svo heppin að Jón Þorkell Einarsson, bekkjarbróðir minn úr barnaskóla, hefur hjálpað mér þegar mig rekur í vörðurnar. Hann er læknir í Lundi í Svíþjóð og á heiður skilinn fyrir hjálparstarfið. Hugtökunum sem ég stranda á hefur reyndar fækkað með árunum en höfundar þáttanna eru nýjungagjarnir og fylgjast vel með framförum í læknisfræði svo það koma alltaf nýjar áskoranir inn á milli.“

Snýst ekki um að vera góður í ensku
Auk þess að vera með BA próf í ensku er Ágústa hálfnuð með meistaragráðu í þýðingarfræðum. „Ég klára meistaragráðuna kannski einhvern tímann, ef ég nenni. Fólk heldur gjarnan að framúrskarandi kunnátta í frummálinu sé forsenda þess að verða góður skjátextaþýðandi en það er misskilningur. Það er vissulega nauðsynlegt að skilja það sem fram fer á skjánum en góður þýðandi þarf fyrst og fremst að skrifa íslensku svo vel sé og kunna að stytta og umorða það sem sagt er.“

„Plássið á skjánum er ekki endalaust svo það er ekki hægt að þýða frá orði til orðs eins og um ritaðan texta væri að ræða. Málið snýst því um að koma merkingunni til skila í sem stystu máli en ekki að þýða hvert einasta orð sem sagt er. Það getur verið áskorun fyrir konu sem er ekki eðlislægt að tjá sig í fáum orðum,“ segir Ágústa kankvís að lokum.

Fyrri greinVertu svona kona í leikhúsinu á Selfossi
Næsta greinÖll sunnlensku liðin úr leik