Á hraðferð beint í sóttkví

Lögreglan í Vík. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Ökumaður sem lögreglan stöðvaði á þriðjudag í síðustu viku var mældur á 157 km/klst hraða á Suðurlandsvegi við Laufskálavörðu.

Hraðferðina skýrði hann með því að hann hafi verið að koma með ferjunni til Seyðisfjarðar og var að drífa sig í sóttkví í Kópavogi.

Ökumaðurinn lýkur máli sínu með 230 þúsund króna sekt og sviptingu ökuréttar í þrjá mánuði.

Annar ökumaður var stöðvaður á svipuðum slóðum síðastliðinn laugardag á 172 km/klst hraða. Hann missir einnig ökuleyfið í þrjá mánuði og fær 250 þúsund króna sekt.

Í dagbók lögreglunnar á Suðurlandi kemur fram að 21 ökumaður til viðbótar voru stöðvaðir vegna hraðakstursbrota í liðinni viku en brot þeirra voru mun veigaminni en þarna getur um.

Einn ökumaður var stöðvaður vegna gruns um að hann væri undir áhrifum fíkniefna og annar var stöðvaður vegna gruns um ölvun og fíkniefnaakstur.