Á fleygiferð í gegnum vinnusvæði

Unnið er að tvöföldun Suðurlandsvegar undir Ingólfsfjalli. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Ungur ökumaður var stöðvaður af lögreglunni á Suðurlandi í morgun eftir að hafa ekið bíl sínum á 134 km/klst hraða á Suðurlandsvegi í Ölfusi, þar sem hámarkshraði hefur verið lækkaður niður í 50 km/klst vegna vinnu við veginn.

Í dagbók lögreglunnar á Suðurlandi segir að viðurlög við broti sem þessu sé 210 þúsund króna sekt auk sviptingar ökuréttar í þrjá mánuði.

Þar að auki mun ökumaðurinn þurfa að sækja sérstakt námskeið fyrir handhafa bráðabirgðaskírteinis, því aðeins eru rúmir tveir mánuðir síðan hann fékk bílprófið.

Lögreglan segir mikilvægt að ökumenn virði viðvaranir og breyttan hámarkshraða á vinnusvæðum á og við veg, því þar er von á fólki við störf og slysahætta því viðvarandi.