„Á barmi taugaáfalls af spennublöndnum kvíða“

Selfyssingurinn Atli Fannar Bjarkason er einn fjögurra höfunda Áramótaskaupsins þetta árið. Atli segir að spennan fyrir gamlárskvöldi aukist með hverjum deginum.

Þetta er í fyrsta skipti sem Atli kemur nálægt vinnu við handritaskrif fyrir leikið sjónvarpsefni en hann hefur getið sér gott orð sem fjölmiðlamaður og er maðurinn á bakvið vefmiðilinn vinsæla Nútíminn.is. Það kom honum því nokkuð á óvart þegar framleiðendur Skaupsins höfðu samband.

„Ég hélt fyrst að það væri eitthvað grín í gangi, að það væri eitthvað verið að pönkast í mér og að ég ætti að fara eitthvert, þar væri bara myndavél og allir myndu hlæja,” segir Atli Fannar þegar hann lýsir því hvernig þetta kom til.

Hins vegar var ekki verið að pönkast í Atla. Hann var hluti af draumahópi sem framleiðendur Skaupsins höfðu sett saman, hópi sem auk Atla er skipaður þeim Steinda Jr., Góa og Kötlu Margréti. Hann var nýliðinn í þessum draumahópi og óhætt að segja að fyrsta handritshöfundaverkefnið hans sé stórt.

„Þetta var náttúrlega frekar klikkað ár og við höfum fengið skot frá fólki um að þetta skrifi sig svo til sjálft,” segir Atli, en vill meina að þvert á móti hafi þetta verið mjög erfitt. „Það er búið að skrifa alla brandarana. Þannig að við þurfum að finna nýja vinkla á öll þessi mál sem allir aðrir eru búnir að tyggja á, spíta og gleyma líka.”

Atli segir að spennan fyrir gamlárskvöldi aukist með hverjum deginum.

„Ég er núna á barmi taugaáfalls af svona spennublöndnum kvíða,” segir Atli. Það mun þó ekki stoppa hann í því að horfa á útkomuna með fjölskyldunni.

„Ég ætla að vera með Twitter fyrir framan mig og ég ætla að éta ofan í mig alla neikvæðnina eins og svampur,” segir Atli hlæjandi. Hann bætir við að félagar hans í höfundateyminu hafi öll sínar aðferðir. „Þau ætla ekki að skoða internetið og tækla þetta mjög skynsamlega,” segir Atli, en það ætlar hann ekki að gera.

„Ég verð með tölvuna fyrir framan nefið á mér í einhverju fjölskylduboði þar sem allir verða búnir að fá sér og því mjög óforskammaðir og óvægnir. Þetta verður örugglega mjög erfitt kvöld hjá mér. Erfiðasta kvöld árins,” segir Atli.

Sjá nánar viðtal við Atla Fannar í jólalesbók Sunnlenska.

Fyrri greinSjúkraflutningamenn færðu Varða góða gjöf
Næsta greinRómantíska stemmningin á Stokkseyri könnuð