Á annað þúsund manns perluðu í Hörpu

Frá viðburðinum í Hörpu í dag þar sem var metmæting. Ljósmynd/Eva Björk

Fjáröflunar- og vitundarvakning Krafts, stuðningsfélags fyrir ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur, hófst með pompi og prakt í Hörpu í dag, sunnudaginn 21. janúar.

Á annað þúsund manns komu saman og perluðu ný Lífið er núna armbönd og sáu perlupartýparið Eva Ruza og Hjálmar um að halda öllum í stuði ásamt fjölmörgum listamönnum sem komu fram.

Metþátttaka í viðburðinum
„Öll Lífið er núna armböndin eru perluð af sjálfboðaliðum og það tókst frábærlega vel til í Hörpu það var algjörlega metþátttaka og samkenndin á svæðinu var einstök. Við náðum að perla 3.581 armbönd en við verðum einnig með viðburði á Akureyri, Neskaupstað, Höfn og víðar á meðan á átakinu okkar stendur en því lýkur 12. febrúar. Hægt verður að nálgast upplýsingar um aðra perluviðburði inn á vefnum okkar og auðvitað kaupa armbandið sem er ein helsta fjáröflun Krafts,“ sagði Hulda Hjálmarsdóttir framkvæmdastjóri Krafts eftir viðburðinn.

Fjölmargir sjálfboðaliðar komu og aðstoðuðu Kraft við að standa að þessum veglega viðburði og vill Kraftur nota tækifærið og þakka þeim öllum fyrir ómetanlega stuðning sem og þeim listamönnum sem komu og auðvitað Guðna forseta sem sagði nokkur orð við þetta tilefni. „Arnar Sveinn, varaformaður Krafts, gaf líka Hildi og Ágústu Hilmarsdætrum einum af stofnendum Krafts sérstakt viðhafnararmband í tilefni þess að Kraftur fagnar í ár 25 ára afmæli. Móðir Arnar Sveins var ein af þeim sem kom að stofnun Krafts ásamt systrunum og því var þetta alveg einstakt augnablik en hún lést úr krabbameini þegar Arnar var einungis 11 ára.

Vertu perla – berðu lífið
Yfirskrift fjáröflunarátaks og vitundarvakningu Krafts í ár er Vertu perla – Berðu Lífið er núna armbandið og vísar það til þess að með því að bera armbandið sé fólk að sýna stuðning með ungu fólki sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendum en félagsmenn okkar taka alltaf eftir því þegar þau sjá fólk bera armbandið úti í samfélaginu. Eða eins og einn sem segir sögu sína í vitunarvakningunni segir „…að sjá einhvern með armbandið sýnir mikinn stuðning, skilning og samhug.“

Um 70 ungir einstaklingar greinast með krabbamein á ári hverju og hefur það bæði áhrif á þau greindu sem og fjölskyldu og ástvini þeirra. Nokkrir félagsmenn Krafts segja sögu sína í átakinu sem hægt er að sjá á www.lifidernuna.is og munu sögurnar birtast líka á samfélagsmiðlum og víðar á meðan á átakinu stendur. Markmið átaksins er að selja ný Lífið er núna armbönd og leyfa almenningi að öðlast innsýn inn í reynsluheima félagsmanna Krafts með því að deila sögum þeirra.

Seld í takmörkuðu upplagi
Armböndin verða seld í vefverslun Krafts, í völdum verslunum Krónunnar og víðar, meðal annars hjá Krabbameinsfélagi Árnessýslu. Armböndin eru seld í takmörkuðu upplagi næstu þrjár vikurnar, kosta 2.900 krónur og rennur allur ágóði af þeim í starfsemi Krafts og styðja við bakið á ungu fólki sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendum.

Að auki verður Lífið er núna viðhafnarútgáfa af armbandinu kynnt til leiks. „Þetta er í fyrsta sinn sem við erum með viðhafnarútgáfu af Lífið er núna armbandinu en Vera Design á heiðurinn af armbandinu og verður það einnig til sölu í takmörkuðu upplagi,“ bætir Hulda við. En fyrstu eintökin af armbandinu hlutu einmitt Hildur og Ágústa.

Fyrri greinHamar/Þór úr leik í bikarnum
Næsta greinHelga Fjóla bætti héraðsmet í stangarstökki