Á 168 km/klst hraða við Hvolsvöll

sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Í liðinni viku kærði lögreglan á Suðurlandi 110 ökumenn fyrir hraðakstur. Sá sem hraðast ók mældist á 168 km/klst hraða á Suðurlandsvegi nærri Hvolsvelli og á hann von á því að vera sviptur ökuréttindum.

Átta ökumenn voru kærðir fyrir að aka undir áhrifum áfengis og þremur ökumönnum til viðbótar var gert að hætta akstri sökum áfengisáhrifa sem mældust undir sviptingarmörkum. Þá voru fimm ökumönnum gert að hætta akstri þar sem ökuréttindi þeirra voru útrunnin.

Níu ökumenn voru kærðir fyrir að nota farsíma við akstur án þess að nota handfrjálsan búnað. Þar að auki voru sex ökumenn kærðir fyrir að nota ekki öryggisbelti við aksturinn. Tveir ökumenn voru stöðvaðir í akstri þar sem bifreiðar þeirra voru ótryggðar og var þeim gert að hætta akstri og voru skráningarmerki bifreiðanna fjarlægð.

Tíu minniháttar óhöpp
Tíu minniháttar umferðaróhöpp voru tilkynnt lögreglu. Minniháttar meiðsli urðu á fólki í þessum óhöppum. Lögregla hvetur ökumenn til að huga að bili milli ökutækja sem og að hafa óskipta athygli við aksturinn.

Í dagbók lögreglunnar á Suðurlandi kemur fram að hún mun áfram halda uppi öflugu eftirliti á vegum umdæmisins og eru bæði nýttar merktar sem og ómerktar lögreglubifreiðar við það eftirlit. Ökumenn eru sérstaklega hvattir til að huga að ástandi ökutækja sinna og skoða ástand ljósabúnaðar núna þegar tekið er að dimma.

Fyrri greinJón og Margeir buðu lægst í Hraunshverfið
Næsta greinMikið í ám á Þórsmerkurleið