Á 158 km/klst hraða á Lyngdalsheiði

Um helgina hafa lögreglumenn verið við hraðamælingar í uppsveitum Árnessýslu meðal annars á Lyngdalsheiðarvegi og inni í þéttbýlinu á Laugarvatni.

Lögreglumennirnir höfðu afskipti af 42 ökumönnum sem voru kærðir fyrir hraðakstur. Sjö þeirra óku of hratt á vegarkafla á Laugarvatni þar sem hámarkshraði er 50 km/klst., og ellefu á Lyngdalsheiðarvegi.

Af þessum 42 sem voru kærðir voru 17 erlendir ferðamenn. Einn þeirra var mældur á 158 km hraða og annar á 144 km hraða, báðir á Lyngdalsheiðarvegi.

Í þessu verkefni sem lögreglumenn settu sér um helgina var áberandi meiri hraði á þjóðvegum utan hringvegarins sem helgast sennilega af því að lögregla er þar minna sýnileg en á þjóðvegi eitt.

Tveir ökumenn voru kærðir fyrir ölvunarakstur um helgina og einn fyrir akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna en sá var einn þeirra sem stöðvaður var fyrir hraðakstur á Laugarvatni. Fjórir voru kærðir fyrir að nota ekki öryggisbelti og tveir fyrir að tala í farsíma við akstur án handfrjáls búnaðar.

Fyrri greinÍ sjálfheldu á Þríhyrningi
Næsta greinAlvarlegt umferðarslys á Skeiðavegi