Á þriðja hundrað manns leita að Svíanum

Um 220 björgunarsveitamenn taka nú þátt í leitinni að sænska ferðamanninum sem týndur er á eða við Fimmvörðuháls.

Maðurinn, sem er Svíi, búsettur í Bretlandi, hafði samband við Neyðarlínu kl. 22:21 í gærkvöldi og bað um aðstoð. Þá hafði hann gert nokkrar tilraunir til að hringja en símasamband er stopult á svæðinu og náði hann ekki að tala við Neyðarvörð nema í stutta stund. Sagðist hann hafa lagt í göngu frá Skógum síðdegis í gær, gengið í 6-8 tíma og væri staddur á jökli. Ekki hefur náðst samband við manninn eftir það.

Björgunarsveitir voru kallaðar til leitar um klukkan 23:00 og hafa verið við leit í alla nótt. Bætt hefur verið við mannafla og er nú búið að kalla til fjallabjörgunarfjólk, göngumenn, hundateymi og tæki er ráða við aðstæður á hálsinum, frá meira og minna öllu landinu.

Vettvangsstjórn björgunarsveita er í Baldvinsskála, skála Útivistar á Fimmvörðuhálsi, svæðisstjórn er á Hellu og landsstjórn björgunarsveita er við störf í Samhæfingarmiðstöðinni í Skógarhlíð.

Þyrla LHG hefur einnig tekið þátt í leitinni í nótt og í morgun.

Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands hefur vindátt á svæðinu verið austlæg og vindur um 13-20 m/sek og nokkur rigning. Gert er ráð fyrir að veður fari versnandi fram undir hádegi.