„Aðkoman var hrikaleg“

Eldurinn í Eden breiddist hratt út og þurftu slökkviliðsmenn að hörfa með bíla og mannskap sem fyrstur kom á vettvang vegna hitans frá eldinum.

Neyðarlínan fékk tilkynningu um reyk frá húsinu frá vegfaranda og var slökkviliðið í Hveragerði kallað út kl. 0:10.

Mikill eldur var í veitingasölunni þegar slökkviliðið kom á vettvang og segir Pétur Pétursson, varaslökkviliðsstjóri hjá Brunavörnum Árnessýslu, að aðkoman hafi verið mjög slæm.

„Aðkoman var hrikaleg. Það eru mjög eldfim byggingarefni í húsinu, þakefnin öll úr plasti og eldurinn var mikill í veitingahlutanum. Við byrjuðu að senda menn inn um aðalanddyrið á húsinu en þá er eldurinn orðinn það þróaður að við þurftum að bakka með þá menn strax,“ sagði Pétur í samtali við sunnlenska.is.

„Það er það mikið gas sem losnar úr þessum efnum þegar þau brenna og berast um húsið og krafturinn var slíkur að það var ekki við neitt ráðið. Eldurinn breiddist gríðarlega hratt út og ég hugsa að allir sem hafi verið hér á vettvangi hafi upplifað gríðarlegan óhugnað, slík voru hljóðin frá eldinum,“ segir Pétur.

Þegar eldfimustu efnin voru brunnin gekk slökkvistarf vel fyrir sig og Pétur segir að aðstæður á vettvangi hafi ekki getað verið betri.

„Það er blankalogn og reykurinn frá húsinu er mjög eitraður en hann steig beint upp í loftið. Geislunarhitinn var mjög mikill og við þurftum að hörfa með tvo fyrstu bílana sem hófu störf á vettvangi svo að þeir myndu ekki skemmast í hitanum.“

Pétur á von á að slökkvistarf muni standa framundir morgun en ljóst er að ekkert stendur eftir af þessum vinsæla ferðamannastað. „Við erum búnir að ná góðum tökum á þessu núna þegar eldfimustu efnin eru farin en það mun taka töluverðan tíma að slökkva í þessu,“ sagði Pétur.

Eden er í eigu Sparisjóðsins á Suðurlandi sem leigir út reksturinn í húsinu.

Fyrri greinEden í Hveragerði alelda
Næsta greinKom ekki til rýmingar