Aðalfundur framundan

Aðalfundur Hollvarðasamtaka FSu verður haldinn að brautskráningu lokinni, föstudaginn 19. desember. Alla jafna er hann haldinn að vorönn en var honum frestað í vor.

Markmið samtakanna er annars vegar að auka tengsl FSu við fyrrum nemendur sína og aðra þá sem bera hag skólans fyrir brjósti, hins vegar að styrkja og efla skólann eftir fremsta megni, fjárhagslega eða á annan hátt, en einnig og ekki síst að rækta og efla samband félags- fólks sín á milli. Námsstyrkir hafa verið veittir til 46 brottfarenda á sl. 13 árum. Þá hafa verið veittir styrkir til bókasafnsins, skólakórsins, söguskráningu skólans og sönglagakeppni.

Hollvarðasamtökin hafa verið aðilar að 25 ára og 30 ára afmælishátíðar samkomum. Tengsl við afmælisárganga skólans hafa verið öll árin. Kynning á starfseminni hefur farið fram við skólaslit.

Í ársbyrjun voru skráðir 354 félagar og 36 fyrirtæki, en það er sá hópur sem stendur að baki starfsemi samtakanna og gefur möguleika á að veita hina ýmsu styrki til skólans og nemenda hans.

Stjórn samtakanna skipa þau Hjörtur Þórarinsson formaður, Anna Árnadóttir gjaldkeri, Sigþrúður Harðardóttir ritari, Nanna Þorláksdóttir fulltrúi starfsmanna skólans og Halldóra Iris Magnúsdóttir fulltrúi nemenda. Helgi Hermannsson starfsmaður stjórnar.

Fyrri grein„Það var kominn tími til“
Næsta greinJólastund í Selfosskirkju