Aðventukrans í fyrsta glugganum

Fyrsti glugginn í jóladagatali Hveragerðis var opnaður við Listigarðinn í morgun. Þetta er annað árið sem Hvergerðingar opna jóladagatal en verkefnið þótti heppnast vel í fyrra.

Annar glugginn var sömuleiðis opnaður í morgun við Garðyrkjustöð Ingibjargar. Gluggarnir verða allir opnaðir á virkum dögum við fyrirtæki og stofnanir í bænum, einn til þrír á dag. Börn úr leikskólum og grunnskóla bæjarins ásamt eldri borgurum taka þátt í að opna gluggana.

Hver gluggi hefur sitt tákn og er lesefni við gluggana um táknin. Höfundur bæði texta og mynda er Guðrún A. Tryggvadóttir hjá nattura.is.

Í nokkrum jólagluggum eru faldir sautján bókstafir sem fjölskyldan getur skemmt sér við að finna og raða í rétta röð þannig að þeir myndi eitt orð tengt jólum. Lausnarorðið á svo að senda á bæjarskrifstofuna og verða vinningshafar dregnir út í janúar.