Aðstöðuhús úr sverum trjáviði

Í haust var smíðað og sett upp aðstaða fyrir ferðamenn við Fjarðárgljúfur í Skaftárhreppi. Allt ytra byrði hússins er gert úr íslenskum trjáviði, sitkagreni sem gróðursett var um 1950 á Tumastöðum í Fljótshlíð.

„Framboð á íslenskum trjáviði á eftir að aukast mjög á næstu árum og áratugum,“ segir Hreinn Óskarsson, skógarvörður á Suðurlandi.

Að verkefninu stóðu Katla jarðvangur, Skaftárhreppur, Vatnajökulsþjóðgarður, Kirkjubæjarstofa, Friður og Frumkraftar og Ferðamálafélag Skaftárhrepps. Hönnuður byggingarinnar er Birgir Teitsson hjá Arkís ehf, sá hinn sami og sigraði í samkeppni Skógræktarinnar um áningarstaði í Þjóðskógum í vor.

Á heimasíðu Skógræktarinnar segir að frá sjónarhorni skógræktarfólks sé einna merkilegast við þetta hús að allt ytra byrði þess er gert úr íslenskum trjáviði, sitkagreni úr Fljótshlíð. Líklega eru í húsinu sverustu viðir sem hingað til hafa verið sagaðir úr íslenskum trjám. Sum borðin voru 25 sm breið.

Starfsmenn Suðurlandsdeildar Skógræktar ríkisins öfluðu efnisins með því að grisja sitkagrenireiti á Tumastöðum. Trén voru gróðursett í kringum 1950. Heldur þröngt var orðið um þau í skóginum og því nauðsynlegt að grisja til að skapa vaxtarrými. Yfirhæð reitanna var um 20 m og sverustu trjábolirnir rúmlega 50 cm sverir í brjósthæð. Efnið var flett bæði með bandsög sem og með svokallaðri rammasög. Rammasögin var keypt til landsins í fyrra og er þeim kostum gædd að hægt er að saga með henni nokkur borð í einu úr trjábolunum.

Hreinn segir fagnaðarefni þegar íslenskir hönnuðir og arkitektar nýta sér innlendan efnivið í nýjar byggingar og ryðji þannig brautina fyrir nýtingu innlends timburs.

Myndir frá verkefninu má sjá á heimasíðu Skógræktarinnar.

Fyrri greinUpplyfting á Selfossi í fyrsta sinn í langan tíma
Næsta greinFarið fram á síbrotagæslu