Aðstoðuðu fasta Breta

Björgunarsveitin Kyndill á Kirkjubæjarklaustri aðstoðaði tvo breska ferðamenn síðdegis í dag en þeir höfðu fest jeppa sinn í snjó á Lakavegi.

Bretarnir höfðu fest jeppann innan við Hellisá á Síðumannafrétti. Ekki er mikill snjór á svæðinu en aðeins var farið að skafa í veginn.

Aðstoð við ferðamenn á Lakavegi eru algeng útköll hjá Kyndli allt árið um kring þó að flestir lendi í vanda þar í aurbleytu á vorin.