Aðgengi fatlaðra kannað

Hreppsnefnd Hrunamannahrepps hefur skipað starfshóp sem kanna mun aðgengismál fatlaðra í stofnunum hreppsins.

Þau Valdís Magnúsdóttir, Jón Hjalti Sigurðsson og Jón G. Valgeirsson munu sitja í hópnum og gert er ráð fyrir að starfshópurinn hafi lokið störfum og skilað tillögum að úrbótum fyrir sumarfrí.

Að sögn Ragnars Magnússonar, oddvita, var ákveðið að skipa starfshópinn eftir að umræða um aðgengismál fatlaðra vaknaði upp á hreppsnefndarfundi þar sem nefndarmenn vissu að þörf var á úrbótum á einstaka stað.