Aðeins einn af fimm með beltið spennt

Fimm erlendir ferðamenn fluttir á slysadeild Landspítalans eftir bílveltu á Mýrdalssandi í síðustu viku. Rannsókn lögreglu leiddi í ljós að aðeins einn í bílnum var með öryggisbeltið spennt.

Aðeins ökumaðurinn var með öryggisbeltið spennt en enginn farþeganna. Þetta var þrátt fyrir að í bifreiðinni væru áberandi merkingar um að á Íslandi er beltaskylda og upplýsingar um ökuhraða og annað sem máli skiptir í umferðinni.

Á leið sinni frá slysstað urðu lögreglumenn vitni að gáleysislegum akstri ökumanns jeppabifreiðar á Sólheimasandi. Ökumaður tók framúr við vafasamar aðstæður og í eitt skipti mátti litlu muna að hann lenti framan á bifreið sem kom á móti.

Lögreglumennirnir hófu eftirför og stöðvuðu ökumann jeppans en í honum voru sex erlendir ferðamenn og enginn þeirra í bílbelti. „Er nema von að illa fari?“ spyr lögreglan í dagbókarfærslu sinni.

Mjög mikið álag hefur verið á lögreglumönnum í Vík, Kirkjubæjarklaustri og í Höfn í liðinni viku vegna alvarlegra slysa. Hjá lögreglunni á Suðurlandi voru skráð sautján slys og umferðaóhöpp á þessu tímabili.

Fyrri greinTalsvert blóð á vettvangi innbrots
Næsta greinLeiðsögn á síðustu sýningarhelgi