Aðalskipulag Mýrdalshrepps samþykkt

Umhverfis- og auðlindaráðherra samþykkti aðalskipulag Mýrdalshrepps á mánudag en hann hefur verið með það á sínu borði síðan í byrjun september á síðasta ári.

„Við erum auðvitað afskaplega ánægð með að hafa loks gilt aðalskipulag fyrir sveitarfélagið. Ég kom fyrst að þessari vinnu árið 2002 þegar tekin var sú ákvörðun að setja nýja veglínu með göngum um Reynisfjall inn á skipulagið, þannig að þetta er orðið langur tími,“ sagði Elín Einarsdóttir, oddviti, í samtali við sunnlenska.is.

Á aðalskipulaginu er meðal annars. gert ráð fyrir nýrri veglínu sem mun fara í gegnum Reynisfjall en vegurinn mun einnig liggja norðan Dyrhólaóss. Skiptar skoðanir hafa verið um þessa leið í sveitarfélaginu en Umhverfisstofnun veitti neikvæða umsögn um skipulagið á sínum tíma.

Skipulagsstofnun taldi sér ekki fært að staðfesta aðalskipulagið og vísaði málinu til umhverfis- og auðlindaráðherra sem fékk málið í sínar hendur þann 11. september síðastliðinn. Niðurstaðan var sú að virða skipulagsvald Mýrdalshrepps.

Fyrri greinSelfoss semur við Englending og Króata
Næsta greinVill reisa vindmyllur í Þykkvabænum