Aðalbjörg hætt í sveitarstjórn vegna ágreinings

Aðalbjörg Rún Ásgeirsdóttir er hætt í sveitarstjórn Rangárþings eystra vegna ágreinings við sveitarstjóra og oddvita. Um tíma leit út fyrir að nýr meirihluti yrði myndaður af henni og minnihlutanum.

Eftir því sem heimildir Sunnlenska herma átti Aðalbjörg fund með helstu fulltrúum framsóknarmanna í hreppnum á mánudagskvöld í síðustu viku þar sem þrýst var á hana að hætta í sveitarstjórn í stað þess að kljúfa meirihlutann.

„Mér finnst þetta ábyrg afstaða hjá henni, í stað þess að splundra samfélaginu þá velur hún þessa leið,“ sagði Ísólfur Gylfi Pálmason, sveitarstjóri, aðspurður um málið. Hann segir ekki ástæðu fyrir sig að kanna bakland sitt betur eftir þessa uppákomu. „Nei, það eru þrettán af fjórtán á okkar lista sem gengið hafa í takt og fullkomin samstaða í þeim hópi,“ segir Ísólfur.

Þórir Már Ólafsson í Bollakoti í Fljótshlíð tók sæti Aðalbjargar í sveitarstjórn á fundi síðastliðinn fimmtudag. Á sama fundi var kjörið í embætti oddvita en allt leit út fyrir að Lilja Einarsdóttir, níverandi oddviti, hefði ekki fylgi í það embætti vegna andstöðu Aðalbjargar.

„Við gerðum okkur grein fyrir því að hún hefði rætt við minnihlutann,“ segir Ísólfur Gylfi. Hann segir átökin snúast um sig og oddvitann en reynt hafi verið að koma til móts við alla í málinu en því lokið með þessum hætti.

Aðalbjörg hafði áður fengið leyfi frá störfum fyrr í vetur en sneri aftur þann 1. apríl sl. Þá bar hún við ágreiningi við samstarfsmenn sína innan meirihlutans vegna launamála oddvitans.

Fyrri greinHanna og Guðmundur stóðu sig vel
Næsta greinCredo kórinn og Vörðukórinn í Skálholti