„Að sigra þá á Anfield er rosalegt afrek“

„Að spila á Anfield var eitthvað sem maður gat ekki hugsað um fyrir nokkrum árum. Þetta var ótrúlega gaman og það var æðislegt að fá sigur í þokkabót."

Þetta sagði Selfyssingurinn Jón Daði Böðvarsson við Fótbolta.net í dag en hann var í liði Wolves sem sigraði Liverpool 2-1 í enska bikarnum á Anfield á laugardag.

„Þetta er eitt sterkasta lið í Evrópu í dag og það að sigra þá á Anfield er rosalegt afrek. Maður tekur eftir því að þetta er rosalega stór sigur fyrir félagið og stuðningsmennina. Þetta var jákvætt fyrir framhaldið á tímabilinu,“ sagði Jón Daði en Wolves er í 18. sætií Championship deildinni. Sigur liðsins á laugardag kom því verulega á óvart.

„Við erum með mjög sterkt lið en tímabilið hefur verið vonbrigði. Við erum alltof neðarlega miðað við gæði liðsins. Við fórum inn í leikinn sem litla liðið og vissum að öll pressan var á þeim. Við litum á þetta sem win-win. Við ætluðum að mæta dýrvitlausir og hafa gaman. Leikplanið gekk síðan mjög vel upp.“

Manchester United var uppáhaldslið Jóns Daða í enska boltanum þegar hann ólst upp. „Þegar ég var lítill þá hélt ég með United en ég er ekki grjótharður stuðningsmaður. Ef eitthvað er þá er ég samt meira hrifinn af Liverpool þessa stundina en United, það er ekki oft sem United menn segja það.“

Jón Daði kom inn á sem varamaður á 71. mínútu í leiknum á Anfield. „Ég bjóst við að ég myndi byrja og það voru mjög mikil vonbrigði að vera á bekknum. Maður vill spila meira en 15 mínútur í svona leik og eðlilega voru þetta mikil vonbrigði. Maður stjórnar þessu ekki og það eina sem maður getur gert er að koma inn af bekknum og gera sitt besta.“

Í kvöld var dregið í 5. umferð keppninnar og þar fengu Úlfarnir heimaleik á móti toppliði ensku úrvalsdeildarinnar, Chelsea.

Frétt frá Fótbolta.net. Sjá alla fréttina.

Fyrri greinLyftingadeild Umf. Selfoss endurvakin
Næsta greinVMS sameinast VR 1. febrúar