96% orkunnar flutt burt

Í dag er aðeins 4% þeirra orku sem framleidd er á Suðurlandi nýtt á svæðinu en 96% hennar er flutt í aðra landshluta.

Að sögn Björgvins G. Sigurðssonar, 1. þingmanns Suðurkjördæmi, er brýnt að breyta þessu. Björgvin gerði framtíð orkuvinnslu á Suðurlandi að umræðuefni á ársþingi Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga á dögunum.

,,Við hljótum að gera þá kröfu að skilgreindur hluti af þeirri orku sem verður framleidd í framtíðinni verði nýtt hér á Suðurlandi. Sem betur fer búum við ekki við mikið atvinnuleysi en ástandið er brothætt vegna þess hve einhæft það er. Því er mikilvægt að efla orkufrekan iðnað hér á svæðinu,” sagði Björgvin.

Hann benti á að næstu virkjanir yrðu á Suðurlandi og nefndi Hverahlíðavirkjun, Þjórsárvirkjanirnar og Búlandsvirkjun. ,,Þessa orku verðum við að fá að nýta,” sagði Björgvin.

Áður en Kárahnjúkavirkjun var reist var 90% af orku landsmanna framleidd á Suðurlandi.

Fyrri greinSamningurinn rennur út um áramót
Næsta greinKornhæna í óskilum