91 milljón úr Framkvæmdasjóði aldraðra til verkefna á Suðurlandi

Dvalar- og hjúkrunarheimilið Lundur á Hellu. Ljósmynd/ry.is

Heilbrigðisráðherra hefur úthlutað rúmum 650 milljónum króna úr Framkvæmdasjóði aldraðra í samræmi við tillögur stjórnar sjóðsins. Þar af fer tæplega 91 milljón króna til verkefna á Suðurlandi.

Áhersla var lögð á verkefni sem bæta aðbúnað íbúa á hjúkrunarheimilum, úrbætur sem tengjast aðgengismálum og öryggismálum og ýmsum stærri viðhaldsverkefnum. Alls bárust umsóknir um framlög til 60 verkefna og hlutu 54 þeirra styrk.

Klausturhólar á Kirkjubæjarklaustri fá 19,6 milljónir króna sem fara að stærstum hluta í að byggja nýjan gróðurskála og bæta aðstöðu á útisvæði, en einnig til að endurnýja brunakerfi og í annað viðhald innanhúss.

Lundur á Hellu fær rúmar 23 milljónir til viðhalds á einstaklings- og sameiginlegum rýmum og bættu aðgengi fyrir íbúa og Ás í Hveragerði fær 11,2 milljónir króna til viðhalds á sameiginlegum rýmum, fyrir bætt aðgengi að matsal og að verslunarrými og til þess að bæta nettengingu fyrir heimilismenn.

Sveitarfélagið Ölfus fær tæpar 28,6 milljónir króna vegna nýframkvæmdar við dagdvöl fyrir 16 einstaklinga og þá fá Sólvellir á Eyrarbakka rúmar 6,4 milljónir króna til endurnýjunar á innréttingum, viðhalds og málningarvinnu innanhúss og utan og til þess að skipta um gólfefni vegna fallhættu.

Fyrri greinLandsmönnum boðið til samráðs við stefnumótun
Næsta greinPop-up sýning Guðrúnar um helgina