900 milljónum varið í framkvæmdir og fjárfestingar

Á árinu 2014 áætlar Sveitarfélagið Árborg að verja um 900 milljónum króna til framkvæmda og fjárfestinga. Stærstu einstöku fjárfestingaverkefnin eru í fráveitu, gerð hreinsistöðvar og vegna viðbyggingar við Sundhöll Selfoss.

Í viðbyggingu við Sundhöll Selfoss eru áætlaðar 110 mkr á þessu ári. Þá er gert ráð fyrir að gert verði milligólf í hluta miðrýmis Sunnulækjarskóla til að auka við kennslurými, en að jafnframt verði hafist handa við undirbúning að viðbyggingu við skólann. Til þessara verkefna eru áætlaðar 56 mkr.

Alls er gert ráð fyrir fjárfestingum tengdum fráveitu fyrir 230 mkr, þar af til hreinsistöðvar 200 mkr. Einnig verður unnið að endurbótum fráveitu í Kirkjuvegi og hafinn undirbúningur að endurnýjun lagna frá Rauðholti.

Framkvæmdir í vatnsveitu eru áætlaðar fyrir rúmar 50 mkr, þar verður unnið að árlegum verkefnum við að skipta út eldri járnlögnum, auk þess sem lagnir verða endurnýjaðar í Kirkjuvegi og haldið áfram vatnsöflun og rannsóknarborunum við Ingólfsfjall.

Talsvert átak verður gert í viðgerðum á þökum á hinum ýmsu fasteignum sveitarfélagsins. Þannig verður unnið að endurnýjun á þaki Sundhallar Selfoss, Hrísholts 8, Bifrastar og Valhallar við Tryggvagötu, skólahúsnæðis á Eyrarbakka, Sjóminjasafnsins á Eyrarbakka og samkomuhússins Staðar á Eyrarbakka, auk þess sem byggt verður yfir svonefnda útigarða í Vallaskóla.

Unnið verður að viðhaldi eldra skólahúsnæðis á Stokkseyri og lögnum í Vallaskóla. Sett verður nýtt gólfefni á íþróttahúsið á Stokkseyri og brunaviðvörunarkerfi komið fyrir. Unnið verður að viðhaldi í leikskólanum á Stokkseyri og Sunnulækjarskóla. Alls er áætlað að verja til þessara viðhaldsverkefna, sem teljast til fjárfestinga í bókhaldi sveitarfélagsins um 75 mkr, að auki er gert ráð fyrir að til viðhalds fasteigna sem fellur undir rekstrarkostnað í bókhaldi verði varið 114 mkr.

Unnið verður að endurbótum á leikskólalóðum, skólalóðum Vallaskóla og Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri, og lóð Sandvíkurseturs fyrir alls um 48 mkr. Um 10 mkr verður varið til frágangs opinna svæða víðs vegar í sveitarfélaginu. Unnið verður að endurbótum á íþróttavellinum við Engjaveg og útbúinn nýr æfingavöllur.

Selfossveitur munu framkvæma fyrir um 130 mkr, er þar m.a. um að ræða virkjun borholu í Þorleifskoti og við Ósabotna, en borun í Ósabotnum á árinu 2013 skilaði talsverðu magni af heitu vatni sem bætir verulega stöðu veitnanna hvað vatnsöflun varðar. Unnið verður að endurnýjun á miðlunartanki og lagfæringum á aðstöðu Selfossveitna að Austurvegi 67. Um 11 mkr verður varið til stækkunar dreifikerfis, en hitaveita verður lögð að húsum norðan við Eyrarbakka. Undanfarin ár hefur verið unnið að því að fjölga þeim íbúðarhúsum sem tengjast hitaveitu og er umrædd lögn liður í því verkefni.

Unnið verður að endurbótum á Kirkjuvegi frá Engjavegi að Fossheiði og á Merkisteinsvöllum á Eyrarbakka. Lögð verður klæðning á Hellismýri og gengið frá yfirborði vegar að Austurvegi 21, 21b og 21c. Gerð verður breyting á aðkomu að skólamannvirkjum við Tryggvagötu auk þess sem fé verður varið til vegagerðar í Hellisskógi.

Áfram verður haldið endurnýjun göngustíga líkt og gert hefur verið undanfarin ár. Að auki verður haldið áfram lagningu svonefnds Fjörustígs á milli Eyrarbakka og Stokkseyrar. Þá verður lagður göngustígur við hverfin Gráhellu og Austurbyggð og er áætlað að verja um 52 mkr í þessi verkefni á árinu. Áfram verður haldið verkefni við endurnýjun gangstétta á Eyrarbakka og gert við gangstéttar víða í sveitarfélaginu fyrir um 11 mkr.

Um 2,5 mkr verður varið til kaupa og uppsetningar á biðskýlum fyrir farþega strætó. Unnið verður að endurnýjun á gatnalýsingu, auk þess sem lýsing verður sett upp við reiðhöllina á Selfossi og fjármunum varið til að setja upp aðvörunarljós við öryggissvæði flugbrautar á Selfossflugvelli. Einnig verður unnið að endurbótum á gámasvæði sveitarfélagsins. Áfram verður haldið uppsetningu eftirlitsmyndavéla við byggðarkjarna sveitarfélagsins. Um 6 mkr verður varið til endurbóta á tjaldsvæðum sveitarfélagsins.

Þá verða keyptir lausafjármunir fyrir Barnaskólann á Eyrarbakka og Stokkseyri, hjólabrettasvæði, íþróttavallarsvæðið við Engjaveg og íþróttahúsið Baulu, auk endurnýjunar bíla og sláttuvéla, alls um 26 mkr. Fjármunum verður varið til að hefja undirbúningsvinnu að endurnýjun húsnæðis vegna búsetuúrræða fyrir fatlaða og hafin vinna við undirbúning breytinga á húsnæði fyrir eldri borgara að Grænumörk, Selfossi.