88 milljónir í verkefni á Suðurlandi

Í gær voru veittir styrkir úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða og er þetta fyrsta úthlutunin af þremur á þessu ári. Hæstu styrkirnir fóru til verkefna við Geysi í Haukadal og Stöng í Þjórsárdal.

Alls fengu 44 verkefni styrk að þessu sinni og nam heildarstyrkupphæðin rúmlega 150 milljónum króna. Af þeirri upphæð runnu 88,4 milljónir króna eða rúm 58% til verkefna á Suðurlandi.

Hæstu styrkina, 20 milljónir króna, fá Sveitarfélagið Bláskógabyggð vegna hugmyndasamkeppni og deiliskipulagsvinnu við Geysi í Haukadal og Fornleifavernd ríkisins til að ljúka skipulags- og hönnunarvinnu og hefja uppbyggingu við Stöng í Þjórsárdal.

Hveravallafélagið fær 10 milljónir króna vegna skipulags og framkvæmda á Hveravöllum, Skógrækt ríkisins 7,5 milljónir króna vegna þjónustuhúss í Þjóðskógum við Laugarvatn, Kötlusetur ses. rúmar 6,3 milljónir króna til ýmissa verkefna og Rangárþing ytra 6 milljónir króna til tveggja verkefna.

Verkefnin sem hljóta styrki eru fjölbreytt og kennir ýmissa grasa. Öll eiga þau þó sameiginlegt að þeim er ætlað að stuðla að þeim markmiðum sem sett voru með stofnun Framkvæmdasjóðsins. Þar ber hæst uppbyggingu, viðhald og verndun ferðamannastaða í opinberri eigu eða á náttúruverndarsvæðum um land allt, að tryggja öryggi ferðamanna, vernda náttúru landsins og fjölga viðkomustöðum ferðamanna, svo nokkuð sé nefnt.

Sjóðurinn stórefldur
Á næstu þremur árum mun sjóðurinn stóreflast en hann mun fá árlega 500 milljónir aukalega í tengslum við fjárfestingaáætlun ríkisstjórnarinnar til að standa fyrir löngu tímabæru viðhaldi, gróðurvernd og uppbyggingu við ferðamannastaði. Gert er ráð fyrir að næsta úthlutun fari fram í apríl næstkomandi.

Sunnlensk verkefni sem fengu styrk
Fornleifavernd ríkisins – Stöng í Þjórsárdal, ásýnd og umhverfi – 20.000.000
Bláskógabyggð – Geysir í Haukadal – Hugmyndasamkeppni og deiliskipulagsvinna20.000.000
Hveravallafélagið ehf – Deiliskipulag Hveravalla, virkjun borhola og veituframkvæmdir – 10.000.000
Skógrækt ríkisins – Þjónustuhús í Þjóðskógunum Laugarvatni – 7.500.000
Skaftárhreppur – Fjarðárgljúfur, uppbygging innviða – 5.000.000
Svf. Ölfus – Reykjadalur 2013 – 5.000.000
Kötlusetur ses – Sólheimajökull – 3.000.000
Rangárþing eystra – Skipulagsgerð og framkvæmdir við Hamragarða og nærumhverfi 3.000.000
Rangárþing ytra – Rammaskipulag Fjallabaks – 3.000.000
Rangárþing ytra – Deiliskipulag Landmannalauga, Undirbúningur undir samkeppni – 3.000.000
Kötlusetur ses – Víkurfjara – 1.900.000
Umhverfisstofnun – Deiliskipulag fyrir Gullfoss – 1.800.000
Rangárþing eystra – Skipulag og uppbygging stíga við Skógafoss – 1.350.000
Vinir Þórsmerkur – Viðhald gönguleiða á Þórsmerkursvæðinu – 1.000.000
Kötlusetur ses – Dyrhólaey – 900.000
Hrunamannahreppur – Aðgengi að Gullfossi austanmegin – 700.000
Rangárþing eystra – Aðgengi að Gluggafossi – 700.000
Kötlusetur ses – Hjörleifshöfði – 550.000
Fyrri greinÞórsarar töpuðu toppslagnum
Næsta greinArna Ír: Af hverju skiptir jöfnuður máli?