877 án vinnu í desember

Atvinnuleysi á Suðurlandi var 6,3% í desember en 5,7% í nóvember en í desember jókst það um 0,5% á milli ára.

Talsvert meiri aukning atvinnuleysis var meðal karla en það jókst um 0,8%, og var 6,8%. Atvinnuleysi meðal kvenna nam 5,7%.

877 voru atvinnulausir á Suður­landi í desember, 511 karlar og 366 konur. Langflestir voru atvinnu­lausir í Árborg eða að meðaltali 434. Í Hveragerði voru 112 án vinnu. Í Ölfussi fjölgaði um 20 milli mánaða. Á Suðurlandi voru 5 störf laus í desember.

Vinnumálastofnun áætlar að atvinnuleysi sé á bilinu 8,3% til 8,6% nú í janúar en á sama tíma fyrir ári síðan mældist það 9,0%. Mest fór það upp í 9,3% í febrúar/mars í fyrra.