850 milljón króna fjárfestingar í Hveragerði

Framkvæmdir hjá Veitum. Ljósmynd: Atli Már Hafsteinsson.

Á stjórnarfundi Veitna þann 8. apríl síðastliðinn  voru samþykktar aðgerðir til að bregðast við þeim afleiðingum sem Covid-19 faraldurinn hefur haft á atvinnulíf landsins.

Veitur ætla að sýna samfélagslega ábyrgð í verki og auka fjárfestingar í mannaflsfrekum verkefnum sem hafa munu mikil áhrif í samfélaginu. Leiðarljósið er að viðhalda atvinnustigi í landinu eins og kostur er en áætlað er að aðgerðirnar skapi hátt í 200 störf á starfssvæði Veitna á suðvesturhorni landsins.

Samþykkt var að auka fjárfestingar Veitna um samtals 2 milljarða króna á árinu 2020. Jafnframt var samþykkt að stefna að því að auka fjárfestingar á árinu 2021 um allt að 4 milljarða króna en endanleg ákvörðun um aukningu fjárfestinga á árinu 2021 kemur til afgreiðslu við gerð fjárhagsspár í haust. Þessar fjárfestingar bætast við áður fyrirhugaðar fjárfestingar Veitna sem nema um 9 milljörðum kr. árlega. Veitur munu því fjárfesta fyrir samtals 11 milljarða króna á þessu ári og líklega 14 milljarða króna árið 2021.

Fjölmörg verkefni í Hveragerði
Veitur hafa undanfarið skilgreint mikilvæg verkefni í Hveragerði sem ráðist verður í á næstu tveimur árum. Framkvæmdafé hefur verið aukið um 250 milljónir króna í ár og 300 milljónir króna á næsta ári ofan á þær 300 milljónir sem þegar voru á áætlun á þessu tímabili. Samtals verður því 850 milljónum varið í framkvæmdir í Hveragerði á þessu ári og næsta.

Fyrst má nefna uppsetningu djúpdælu sem auka mun afhendingaröryggi hitaveitu í Hveragerði til framtíðar en álag á kerfið hefur stundum verið of mikið yfir köldustu mánuðina. Húsnæði Veitna við Bláskóga verður jafnframt breytt með það fyrir augum að varmaskiptir sem þar er geti tekið á móti mun heitara vatni sem eykur afhendingaröryggi hitaveitu.

Fljótlega munu Veitur einnig hefjast handa við byggingu nýrrar 500 m2 starfsstöðvar sem hýsa mun starfsmannaaðstöðu og lager í nýju iðnaðarhverfi Hveragerðis í Vorsabæ. Einnig er unnið að uppsetningu snjallmæla í bæjarfélaginu en með þeim er hægt að fjarlesa upplýsingar um hitastig og notkun.

Verkefnin eru öll þess eðlis að þau eru fyrir utan hefðbundin störf starfsfólks Veitna og verða því verktakar ráðnir til að sinna þeim. Þannig verða sköpuð fleiri störf til að vega á móti því atvinnuleysi sem skapast hefur af völdum Covid-19 faraldursins.

Lyftistöng fyrir bæjarfélagið
„Hvergerðingar eru afar ánægðir með þær framkvæmdir sem framundan eru í bæjarfélaginu.  Með tilkomu djúpdælunnar sjáum við fram á nýja tíma hvað varðar afhendingaröryggi því ljóst er að nægt heitt vatn er hér undir fótum okkar. Framkvæmdir fyrirtækisins verða lyftistöng fyrir bæjarfélagið og starfstöð Veitna sem rísa mun í nýja iðnaðarhverfinu við Vorsabæ mun verða áberandi og veita störf bæði á framkvæmdatíma sem og síðar. Það er mikilvægt að við sameinumst um að halda áfram framkvæmdum á þessum tíma og því er ánægjulegt að sjá að Veitur ohf og Hveragerðisbær eru á sömu skoðun hvað það varðar,“ segir Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri.

Fyrri greinSkoða vetnisvinnslu við Ljósafossstöð
Næsta greinFrítt í sund fyrir öll börn í Árborg