800Bar á Selfossi lokað

800Bar á Selfossi hefur verið lokað. Staðurinn opnaði við Eyraveg fyrir réttum sjö árum síðan og fluttist síðan í Hótel Selfoss eftir stórbruna árið 2012.

„Það er búið að liggja í loftinu síðan um áramót að hætta rekstri. Leigusalinn gaf til kynna um að ekki stæði til að framlengja leigusamninginn og ég tók því svosem fagnandi þar sem ég hef ekki haft neinn tíma fyrir reksturinn undanfarna mánuði,“ sagði Eiður Birgisson, eigandi 800Bars, í samtali við sunnlenska.is.

„Til þess að svona rekstur beri sig þarf eigandinn að hafa tíma til að sinna honum og ég hef ekki haft hann. Þetta getur verið skemmtileg vinna en þetta getur líka verið kvöð og allt þetta næturbrölt getur verið þreytandi. Mér finnst skemmtilegra að vakna með börnunum mínum á morgnana heldur en að afgreiða bjór á nóttunni,“ segir Eiður en bætir við að auðvitað hafi tíminn á barnum verið skemmtilegur líka.

„Ég hef kynnst mikið af skemmtilegu fólki og nokkrir af mínum bestu vinum í dag eru menn sem ég hef kynnst í gegnum barreksturinn. Það getur vel verið að ég verði ferskur einn daginn og opni aftur skemmtistað eða geri eitthvað tengt skemmtanabransanum, en í dag ætla ég að njóta þess að vera í fríi um helgar. Það er vanmetið að sofna snemma á laugardagskvöldi yfir klassískri mynd á Stöð 2.“

Aðspurður hvort ekki hafi komið til greina að selja barinn segir Eiður svarið við því vera einfalt. „Þá hefði ég þurft að endurnýja leigusamninginn og vonast eftir kaupanda og það veit enginn hvað það hefði tekið langan tíma. En ef það er einhver sprækur sem kemst í húsnæði sem hentar fyrir bar þá getur viðkomandi verið í sambandi við mig fengið nánast allt til barreksturs hjá mér,“ segir Eiður sem vill koma bestu þökkum á framfæri til allra þeirra sem starfað og skemmt sér á barnum í gegnum tíðina.

Eiður hefur starfað við kvikmyndagerð í mörg ár og á liðnum vetri vann hann að stærsta sjónvarpsverkefni Íslandssögunnar, þáttunum Ófærð, sem Baltasar Kormákur framleiðir. „Það er mikið að gera í kvikmyndagerðinni í dag, ég var að ljúka við tökur á Ófærð og í haust tekur við kvikmyndin Eiðurinn í leikstjórn Baltasars, auk þess sem fleiri skemmtileg verkefni bíða,“ segir Eiður að lokum.

Fyrri greinÁfram Bjöggi! – MYNDBAND
Næsta grein„Misstum stjórnina í seinni hálfleik“