8000 gestir á Gaddstaðaflötum

Talið er að a.m.k. 8000 manns séu á útihátíðinni á Gaddstaðaflötum. Að sögn lögreglu á Hvolsvelli hefur samkoman farið vel fram til þessa.

Eitthvað var um pústra og slagsmál í nótt. Einn var stunginn með hnífi en sá mun ekki hafa slasast alvarlega. Sá sem lagði til hans er nú vistaður í fangageymslum og er málið í rannsókn. Þá var tilkynnt um eina líkamsárás á svæðinu. Þrír gistu fangageymslur á Hvolsvelli og á Selfossi.

Umferðarteppa myndaðist í gærkvöldi þegar gestir voru á leið á mótið, en hún leystist um kl. 2 um nóttina. Margir voru þá búnir að bíða á annan klukkutíma í umferðinni en samfelld röð var frá Landvegamótum að Gaddstaðaflötum.

Annars gekk umferðin stórslysalaust. Einn ökumaður var tekinn á 140 km/klst hraða undir Ingólfsfjalli í gærkvöldi.