80 til viðbótar í sóttkví í Ölfusi

sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Eitt kórónuveirusmit greindist í Þorlákshöfn eftir stóra skimun í gær og eru 80 manns í viðbót komnir í sóttkví þar.

Í dag eru 36 manns í einangrun á Suðurlandi vegna COVID-19 og hefur fjölgað um fimm frá því í gær.

Í Þorlákshöfn eru fjórtán manns í einangrun og 99 í sóttkví. Þrír eru í sóttkví í dreifbýlinu þannig að í Ölfusi öllu eru 102 í sóttkví í dag.

Þá eru fjórtán í einangrun á Selfossi og hefur fjölgað um þrjá síðan í gær. Selfyssingum í sóttkví hefur fækkað nokkuð en í dag eru 44 í sóttkví á Selfossi. Fimm eru í einangrun á Stokkseyri og Eyrarbakka og 38 í sóttkví.

Þá eru tveir í einangrun í Hrunamannahreppi og 24 í sóttkví eftir að smit kom upp í hreppnum, eins og sunnlenska.is greindi frá í gær.

Séu allar tölur teknar saman eru samtals 218 í sóttkví á Suðurlandi og þar að auki eru 93 í skimunarsóttkví á Suðurlandi eftir að hafa farið í sýnatöku á landamærunum.

Þetta kemur fram á heimasíðu HSU. Engin staðfest smit eru austan Þjórsár.

Fyrri grein110 nemendur FSu í sóttkví
Næsta greinPálmi Gunnarsson er flottastur