75 sunnlensk fyrirtæki á Mannamótum 2024

Ferðakaupstefnan Mannamót Markaðsstofa landshlutanna voru haldin í Kórnum í Kópavogi 18. janúar síðastliðinn. Þátttaka fór vonum framar en rúmlega 400 manns frá um 250 fyrirtækjum af landsbyggðinni kynntu þjónustu sína á kaupstefnunni.

Ferðaþjónustufyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu höfðu greinilega mikinn áhuga á fjölbreyttu þjónustuframboði landsbyggðarinnar en um 1.000 gestir heimsóttu Mannamót þetta árið.

Sýna fram á fjölbreytni og gæði
Mannamót Markaðsstofa landshlutanna eru ekki aðeins ferðakaupstefna heldur einnig kynningarvettvangur fyrir ferðaþjónustufyrirtæki af landsbyggðinni. Þetta tækifæri leyfir fyrirtækjum að sýna fram á fjölbreytni og gæði þjónustu sinnar við fagaðila frá höfuðborgarsvæðinu og aðra gesti. Markmið viðburðarins er að skapa samtal og tengsl milli fyrirtækja og auka sýnileika landsbyggðarinnar í ferðaþjónustu á Íslandi.

Á þessu ári fjölmenntu sunnlensk fyrirtæki að venju og voru hvorki fleiri né færri en 75 fyrirtæki sem sýndu fjölbreytt menningar- og ferðaþjónustuframboð svæðisins. Þau lögðu sitt af mörkum til að skapa líflegt og skemmtilegt andrúmsloft á Mannamótum, sem endurspeglaði kraft, sérstöðu og sjarma Suðurlands.

Viðburðurinn stækkar og dafnar
Ferðakaupstefnan hefur heldur betur fest sig í sessi enda var hún nú haldin í tíunda sinn. Mannamót hafa verið haldin á ári hverju frá árinu 2014 að undanskildu 2021.

„Þetta er viðburður sem stækkar og dafnar með hverju árinu og um leið og við þökkum öllum þeim sem tóku þátt í ár hjartanlega fyrir að gera þennan viðburð eins skemmtilegan og hann er þá hlökkum við til að bjóða sýnendur og gesti velkomna aftur að ári liðnu,“ segir í tilkynningu frá Markaðsstofu Suðurlands.

Hér fyrir neðan eru nokkrar myndir frá Mannamótum 2024.

Fyrri greinGul viðvörun árla fimmtudags
Næsta greinVel heppnuð stækkun á grunnskólanum