7,5 milljónir króna til að styrkja sunnlenskar ræktunaraðferðir

Ráðherra ásamt hluta styrkþega á kynningu í dag. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Sunnlenskir garðyrkjubændur fengu í dag samtals 7,5 milljónir króna í ræktunarstyrki frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Þetta er helmingur upphæðarinnar sem úthlutað var í dag.

Garðyrkjustöðin Brúará á Böðmóðsstöðum í Laugardal fékk 3 milljón króna styrk til þess að nýta LED lýsingu með áherslu á að rækta rautt salat. Jarðaberjaland í Reykholti í Biskupstungum fékk sömuleiðis 3 milljónir króna til þess að kaupa róbót sem nota má í lýsingar hjá jarðaberjaræktun, sem gerir framleiðslu öruggari allt árið og auki möguleika á aukinni framleiðslu.

Þá fengu gulrótabændurnir í Auðsholti í Hrunamannahreppi 1 milljón króna styrk en þar er unnið að því að lengja uppskerutíma gulróta með hitalögnum. Skálpur slf í Sandvíkurhreppi fékk svo 500 þúsund króna styrk til þess að stuðla að og viðhalda sjálfbærni í íslenskri gulrófurækt ásamt því að gera ræktunina umhverfisvænni.

Styðja umhverfisvænar aðferðir
Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, úthlutaði átta styrkjum til verkefna í dag, samtals að upphæð 15 milljónum króna en styrkirnir eru liður í aðgerðum atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins til að bregðast við COVID-19 heimsfaraldri á íslenskt samfélag. Lögð er áhersla á að styðja umhverfisvænar aðferðir sem eru til þess fallnar að styrkja grænmetisframleiðslu hér á landi. Með styrkjunum er stutt við nýsköpun og framþróun í garðyrkju.

„Þessi úthlutun er liður í aðgerðum til að bregðast við áhrifum COVID-19 til skemmri og lengri tíma. Skapa öfluga viðspyrnu með því að hvetja til aukinnar verðmætasköpunar til hagsbóta fyrir íslenskt samfélag. Þessi frábæru verkefni eru öll til þess fallin enda afrakstur þeirrar miklu grósku sem á sér stað í íslenskri garðyrkju,” segir Kristján.

Fyrri greinDaði Geir gefur kost á sér hjá Framsókn
Næsta greinHamarsmenn einir á toppnum