7,3 milljónir á Suðurland

Átta verkefni á Suðurlandi fengu úthlutað úr Pokasjóði verslunarinnar í vikunni. Heildarúthlutun sjóðsins nam rúmum 56 milljónum króna og fóru 7,3 milljónir í verkefni á Suðurlandi.

Hæsta upphæðin á Suðurlandi fór til Landgræðslufélags Biskupstungna, 3,5 milljónir til uppgræðslu og stöðvunar landeyðingar á Haukadalsheiði.

Vinir Þórsmerkur fengu eina milljón til viðhalds gönguleiða í Þórsmörk og Goðalandi. Hellismenn í Landmannahelli fengu hálfa milljón til að koma upp sögu- og fræðsluskiltum í friðlandinu að Fjallabaki og sama upphæð rann til Fjallskilasjóðs Rangárvallaafréttar til að vinna að vistheimt við Hafrafell, Foss og Kerlingarfjall á afréttinum.

Þá fékk Ferðamálafélag Skaftárhrepps hálfa milljón til að endurbæta göngustíga við Kirkjubæjarklaustur og Afréttarmálafélag Flóa og Skeiða fékk hálfa milljón til uppgræðslu við Reykholt í Þjórsárdal.

Sjálfsbjörg á Suðurlandi fékk úthlutað 300 þúsund krónum til að koma upp heilsárs náðhúsi fyrir fatlaða í Haukadalsskógi.