70 tonna leikmunur nærri sokkinn

Leki kom að bátnum Stormur-Breki, sem er 70 tonna trébátur, laust fyrir klukkan 16 í dag út af Herdísarvík.

Sjór var kominn í lest, vélarrými og framskip bátsins og hann var hálfsokkinn þegar þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-LÍF, kom að honum kl. 16:25.

Stýrimaður þyrlunnar seig niður með dælu og hóf að dæla úr bátnum. Honum var stefnt til Þorlákshafnar í fylgd dráttarbáts úr Þorlákshöfn og þangað var hann kominn um kl. 18.

Stormur-Breki var á leið til Vestmannaeyja frá Reykjavík og voru tveir menn um borð. Nota á bátinn sem leikmun í kvikmynd Baltasars Kormáks um Helliseyjarslysið en tökur hefjast í Vestmannaeyjum á mánudaginn.