60 milljón króna hagnaður af rekstri bæjarins

„Það er ánægjulegt að geta látið íbúa vita af því að hagnaður af rekstri Hveragerðisbæjar er um 70% betri en fjárhagsáætlun ársins 2014 gerði ráð fyrir,“ segir Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri í Hveragerði.

Hagnaður af rekstri A og B hluta nam 60,4 milljónum króna en í fjárhagsáætlun var gert ráð fyrir jákvæðri niðurstöðu að fjárhæð kr. 35,8 milljónum króna.

Afborganir langtímalána og afborganir leiguskuldar vegna Sunnumarkar nema rúmlega 157 milljónum króna en bærinn tók ný langtímalán á síðasta ári upp á 65 milljónir króna. Í árslok er hlutfall skulda af tekjum 123,8% en ef frá er dregin lífeyrisskuldbinding sem fellur til eftir 15 ár eða síðar er skuldahlutfallið 114,8%.

Heildartekjur A og B hluta eru 1.989 mkr og heildarútgjöld án afskrifta og fjármagnsliða 1.695 mkr. Eigið fé samstæðu A og B hluta í árslok nam rúmum 948 mkr. skv. efnahagsreikningi.

Veltufé frá rekstri A og B hluta nam um 207,8 milljónum króna eða 10,4 % af heildartekjum. Handbært fé frá rekstri var 215,5 milljóni króna en áætlun gerði ráð fyrir 227,5 milljónum. Aldís segir að ef rekstur sveitarfélagsins á árinu 2015 verði svipaður og á árinu 2014 þá muni handbært fé frá rekstri verða nægjanlegt til þess að greiða fyrir áætlaðar afborganir lána og afgangur verður til fjárfestinga.

Á árinu 2014 voru helstu fjárfestingar fólgnar í gatnagerði í Bröttuhlíð og Þverhlíð og lagninur göngustíga auk þess sem keypt var húsnæði fyrir frístundaskóla. Fjárfesting á árinu 2014 nam 113 milljónum króna.

Ofangreindar upplýsingar komu fram í máli endurskoðanda en ársreikningur Hveragerðisbæjar var lagður fram til fyrri umræðu á fundi bæjarstjórnar fyrr í mánuðinum.

Fyrri greinSina brennur á stóru svæði í Flóanum
Næsta greinHeiðursverðlaun garðyrkjunnar fóru í Ártanga í Grímsnesi