50% söluaukning í Vínbúðinni

Tilkoma Hvítárbrúar breytir ýmsu í verslun og viðskiptum í uppsveitum Árnessýslu. Rúmlega 50% söluaukning varð í Vínbúðinni á Flúðum nú í desember miðað við árið áður.

Sigrún Ósk Sigurðardóttir, aðstoðarforstjóri ÁTVR, telur þessa söluaukningu tilkomna vegna betri samgangna. Þremur dögum fyrir jól var salan 50% meiri en á sama tíma í fyrra. Þá höfðu selst 2.100 lítrar af áfengi í Vínbúðinni á Flúðum í desember, þar af um 1.800 lítrar af bjór. Aukningin í sölu bjórs er yfir 60%.

Fleiri fyrirtæki njóta góðs af nýju brúnni. Þannig eru Hreppamenn ánægðir með hve stutt er orðið í næsta bankaútibú sem er Landsbankinn í Reykholti. Þá hafa verslunareigendur bæði í Reykholti og á Flúðum orðið varir við aukin viðskipti.